Serbar unnu Evrópumeistara Svía, 30:28, í síðasta leik þeirra áður en heimsmeistaramótið í handknattleik karla hefst í Póllandi og Svíþjóð um miðja vikuna. Leikið var í Halmstad og heiðruðu leikmenn sænska landsliðsins minningu Bengt Johanssons í leiknum með því að bera gælunafn hans, Bengan, á bakinu á keppnistreyjum sínum.
Felix Claar med Bengan på trøjen 👏 hvor er det en smuk gestus at mindes legenden Bengt Johansson på 🙏 #bengan #satteheltegnestandarderforledelse ❤️ pic.twitter.com/1KBdQroKSe
— Bent Nyegaard (@BentNyegaard) January 9, 2023
Sænska landsliðið var marki yfir í hálfleik, 13:12, og náði um skeið fjögurra marka forskoti áður en Serbarnir sýndu tennurnar.
Bergendahl meiddist í öxl
Leikurinn kann að hafa reynst sænska liðinu dýr. Oscar Bergendahl meiddist á öxl í fyrri hálfleik og kom ekkert meira við sögu í leiknum. Enn er ekki ljóst hvort meiðslin séu alvarleg en það væri mikið áfall fyrir Svía að missa línumanninn sterka svo skömmu fyrir HM.
Lucas Pellas skoraði fimm mörk og var markahæstur Svía. Max Darj, Jim Gottfridsson, Eric Johansson og Felix Claar skoruðu þrjú mörk hver. Bogdan Radivojevic og Lazar Kukic skoruðu fimm mörk hvor fyrir Serba og voru atkvæðamestir við þá iðju.
Serbar í erfiðum riðli á HM
Serbar verða í E-riðli heimsmeistaramótsins með Þýskalandi, Katar og Alsír sem leikinn verður í Katowice í Póllandi. Riðillinn er ekki síður sterkur en sá sem íslenska liðið á sæti í. Fyrsti leikur Serba í keppninni verður við Alsírbúa á föstudaginn.
Fyrsti leikur Svía á HM verður á fimmtudagskvöldið gegn Brasilíu en einnig er landslið Grænhöfðaeyja og Úrúgvæ í C-riðli sem leikinn verður í Gautaborg.
Bengan Boys
Eins og áður segir heiðraði sænska landsliðið minningu hins goðsagnakennda landsliðsþjálfara Bengt Johanssons í leiknum með að leika í keppnistreyjum merktum Bengan. Johansson lést fyrri hluta árs 2022, 79 ára gamall.
Johansson, sem er álitinn einn snjallasti landsliðsþjálfari sögunnar, stýrði sænska landsliðinu frá 1988 til 2004 og vann á þeim tíma tvisvar heimsmeistaratitilinn, fjórum sinnum Evrópumótið og hreppti í þrígang silfurverðlaun á Ólympíuleikum. Var sænska landsliðið á hans tíma í dagslegu tali kallað Bengan Boys.
Eins og handbolti.is sagði frá á dögunum þá verða sigurlaunin í sænsku úrvalsdeildunum, karla og kvenna, kennd við Johansson frá og með næsta keppnistímabili.