Evrópumeistarar SC Magdeburg áttu ekki í teljandi erfiðleikum með Afríkumeistara Al Ahly í viðureigninni um þriðja sætið á heimsmeistaramóti félagsliða í Kaíró í dag, lokatölur 32:23. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 19:11. Mestur varð munurinn 12 mörk, 28:16, upp úr miðjum síðari hálfleik.
Ómar Ingi Magnússon var markahæstur Íslendinganna þriggja með fimm mörk, tvö þeirra úr vítaköstum. Elvar Örn Jónsson skoraði þrisvar og Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvisvar. Gísli átti fjórar stoðsendingar, Ómar tvær og Elvar eina.


Daninn Magnus Saugstrup var markahæstur leikmanna Magdeburg. Hann skoraði sjö mörk. Næstur var Philipp Weber með sex mörk.
Saif Hany og Mohamed Hesham skoruðu fjögur mörk hvor fyrir Al Ahly-liðið.
Magdeburg fékk 50.000 dollara, ríflega 6 milljónir kr., í verðlaun fyrir þriðja sætið.
Magdeburg vann fimmta árið í röð til verðlauna á HM félagsliða. Liðið vann keppnina 2021, 2022 og 2023 og varð í öðru sæti fyrir ári.