- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Eyjahjartað sló hratt“

Mynd/Þóra Sif Kristinsdóttir
- Auglýsing -

„Við erum náttúrlega alveg himinlifandi með þessi úrslit og þvílíkur leikur hjá okkur í gær,“ sagði Sunna Jónsdóttir, leikmaður ÍBV, við handbolta.is eftir að liðið komst í þriðju umferð Evrópubikarkeppninnar í handknattleik. ÍBV lagði PAOK í Þessalóníku í síðari viðureign liðanna með sjö marka mun í gær eftir fimm marka tap í fyrradag.


„Við undirbjuggum okkur vel og vorum staðráðnar að gera betur en í fyrri leiknum. PAOK er gott lið með atvinnumenn í öllum stöðum frá ýmsum löndum en við vissum og höfðum trú á að við gætum lagfært ákveðna hluti frá fyrri leiknum og keyrt vel upp hraðann.

Vörnin small og Marta var geggjuð

Vörnin small og Marta var geggjuð fyrir aftan okkur. Sóknarleikurinn, sem við höfum verið í vandræðum með rúllaði nokkuð ágætlega og við náðum að keyra hratt í bakið á þeim,“ sagði Sunna sem var að mati handbolta.is driffjöður ÍBV-liðsins í báðum viðureignunum við PAOK, var sívinnandi og óþreytandi á báðum endum leikvallarins.

Stemningin var öll með okkur

„Við náðum upp sex marka forskoti strax i fyrri hálfleik og það var mikilvægt fyrir okkur. Stemmningin var öll okkar megin og við nutum þess að spila. Fimm manna fylgdarlið okkar var líka frábært upp í stúku og Eyjahjartað sló hratt.


Svo héldum við sama dampi í seinni hálfleik og misstum aldrei móðinn. Leikurinn endaði svo fullkomlega fyrir okkur þegar Marta tók víti i lokin og gleðin var allsráðandi,“ sagði Sunna.


Fyrir utan árangurinn og reynsluna þá segir Sunna þátttöku í Evrópukeppni vera afar mikilvæga fyrir liðið þótt kostnaðurinn sé sannarlega mikill.

Dýrmæt ferð

„Þessi ferð og þessi keppni gefur okkar liði alveg ótrúlega mikið. Það þjappar hópnum saman og svo erum með 11 leikmenn sem höfðu ekki tekið þátt í svona keppni áður og mikið af ungum og efnilegum leikmönnum sem eru að stíga sin fyrstu skref í meistaraflokki og standa sig ótrúlega vel og eru fullar af metnaði. Það gefur svona aðeins eldri leikmönnum eins og mér mikið.

Sunna Jónsdóttir fagnar með samherja eftir sigurinn í gær. Mynd/Þóra Sif Kristinsdóttir


Við höfum líka lent í áföllum og misst lykilleikmenn í meiðsli og höfum því þurft að púsla upp á nýtt og finna rétta taktinn í liðinu. Þessi keppni gefur okkur tíma í það og aukið sjálfstraust og samheldni sem við þurfum að taka með okkur inn í leikina heima og halda áfram að bæta okkur með hverjum leik.

Við bíðum bara spennt eftir að sjá hvað við fáum í næstu umferð,“ sagði Sunna en hún þarf ekki að bíða lengi því dregið verður eftir hádegið í dag.

Metnaður hjá ÍBV

„Að loknum vil ég hrósa ÍBV fyrir að setja metnað sinn í að fara með okkur í svona keppni. Það var allt til fyrirmyndar varðandi skipulag og stjórnin, þjálfarar og fylgdarmenn unnu fagmannlega að því að þessi ferð og leikir yrðu sem bestir fyrir okkur. Það var því gaman að geta skellt sér öll saman á grískan veitingastað í gær og fagnað góðum árangri,“ sagði Sunna Jónsson, hin þrautreynda landsliðskona og leikmaður ÍBV, við handbolta.is eldsnemma í morgun þar sem hún var stödd með samherjum sínum og fylgdarliði á flugvellinum í Þessalóníku á fyrsta legg heimferðarinnar eftir sigurförina.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -