- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eyjamenn deyja ekki ráðalausir – peyjunum flogið á mótið

Mynd/ J.L.Long
- Auglýsing -


Vestmannaeyingar eru ekki þekktir fyrir að deyja ráðalausir. Það sannaðist enn einu sinni í dag þegar útlit var fyrir að síðasta umferð Íslandsmótsins í 5. flokki karla, yngra og eldra árs, væri í uppnámi eftir að síðasta ferð dagsins í dag með Herjólfi var felld niður vegna slæms veðurs.

Forráðamenn ÍBV brugðu á það ráð síðdegis að bjóða liðunum fjórum sem eru strandaglópar á meginlandinu að koma til Eyja með flugi í fyramálið.
Fjögur lið sem áttu að koma til Eyja með kvöldferðinni frá Þorlákshöfn sáu fram á að komast ekki í fjörið og að helgarferð í handboltaveisluna væri fyrir bí. Þar á meðal voru lið KA og Þórs sem komin voru suður þegar tilkynnt var að ferðin með Herjólfi hafi verið slegin af. Í sömu vandræðum voru lið Gróttu og Stjörnunnar.


„Við eigum pantaða leiguflugvél hjá Icelandair á morgun sem á að flytja handboltalið okkar og stuðningsmenn til Akureyrar í oddaleik í Olísdeild kvenna. Við sáum okkur leik á borði þegar útlit var fyrir að mótið væri uppnámi hjá liðunum og nýta vélina til þess að flytja peyjana frá Reykjavík til Eyja. Icelandair varð við ósk okkar. Við erum afar þakklát fyrir það og glöð að fá alla peyjana til mótsins þótt þeir komist ekki allir á tilsettum tíma,“ sagði Vilmar Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar ÍBV í samtali við handbolta.is fyrir stundu.


„Þar með er mótinu bjargað og við erum ákaflega glöð hér í Eyjum að útlit er fyrir að allir geti tekið þátt í síðasta móti tímabilsins hjá þessum aldursflokki. Við leggjum sem fyrr metnað í að taka vel á móti öllum og greiða götu allra okkar gesta í hvívetna svo allir geta farið með góðar minningar heim. Veturinn hefur verið börnum og unglingum sem stunda íþróttir erfiður eins og öðrum. Þess vegna skiptir miklu máli að hægt sé að ljúka keppnistímabilinu á sem allra besta hátt,“ sagði Vilmar Þór sem er önnum kafinn eins og fleiri í kringum félagið vegna mótahaldsins.

Nokkur lið komu með fyrri ferðum í dag enda áttu þau leiki fyrr á dagskránni en liðin fjögur sem koma á morgun.


„Flautað var til leiks á mótinu klukkan þrjú í dag og það verður leikinn handbolti nær sleitulaust frá þrjú í dag til klukkan þrjú á sunnudaginn. Annað kvöld verður kvöldvaka með leik landsliðs og pressuliðs auk tónlistaratriða. Það er mikil eftirvænting og gleði hér og ekki minnkar hún þegar fjögur lið bætast við á morgun,“ sagði Vilmar Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar ÍBV, hress og kátur þrátt fyrir miklar annir.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -