- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eyjamenn komu í veg fyrir Hafnarfjarðarslag í undanúrslitum

Kári Kristján Kristjánsson línumaðurinn þrautreyndi reyndist Haukum erfiður í dag. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

Ekki verður Hafnarfjarðarslagur í undanúrslitum Olísdeildar karla í handknattleik þetta árið. ÍBV sá til þess í dag með því að leggja Hauka öðru sinni í átta liða úrslitum, 37:31, á Ásvöllum og tryggja sér sæti í undanúrslitum hvar liðið mætir deildarmeisturum FH. Væntanlega verður fyrsti leikurinn 21. eða 22. apríl í Kaplakrika.

Eins og kom fram á handbolti.is fyrr í dag þá vann FH liðsmenn KA í tveimur leikjum, þeim síðari nyrðra, 25:19, upp úr miðjum degi.

Ef undan eru skildar allra fyrstu mínúturnar þá voru Eyjamenn með yfirhöndina á Ásvöllum í dag. Vonbrigði Hauka eru skiljanlega mikil en ástæða tapsins verður ekki skrifuð á einfaldan hátt á reikning annarra en þeirra sjálfra.

Búið var að gera salernispappírinn upptækan hjá piltunum þegar myndin var tekin. Mynd/J.L.Long

Slegnir út af laginu

Haukar byrjuðu leikinn afar vel og skoruðu sex af fyrstu átta mörkum leiksins á fyrsta fimm mínútunum en mikill hraði var í leiknum, ekki síst í fyrri hálfleik. Eyjamenn virtust vera hálf slegnir út af laginu eftir að stöðva varð leikinn eftir sjö sekúndur þegar stuðningsmenn þeirra köstuðu nokkrum salernispappírsrúllum inn á leikvöllinn. Leikmenn ÍBV voru fljótir að jafna sig.

Þeir unnu upp forskot Hauka og tóku yfirhöndina í leiknum. Varnarleikurinn gekk vel og sóknarleikurinn var pýðilegur. Markvarslan datt niður hjá Haukum þegar á leið en Magnús Gunnar Karlsson hafði byrjað af miklum krafti.

Sex marka forskot snemma

Í hálfleik var ÍBV þremur mörkum yfir, 17:14. Eftir fimm mínútur í síðari hálfleik var munurinn orðinn sex mörk, 22:16.

Röð atvika

Sautján mínútum fyrir leikslok átti sér stað röð atvika sem hafði mikil áhrif á leikinn. Hún byrjaði á að Ólafi Ægi Ólafssyni, leikmanni Hauka var vikið af leikvelli í tvær mínútur og það í þriðja sinn í leiknum. Hann fékk þar með rautt spjald. Haukar voru fyrir með leikmann í kælingu. Dæmt var vítakast á Hauka. Aron Rafn Eðvarðsson varði vítakastið. Guðmundur Hólmar Helgason, leikmaður Hauka, reyndist hafa verið kominn inn fyrir punktalínu þegar vítakastið var tekið. Því varð að endurtaka það. Það féll í grýttan jarðveg hjá Haukum sem mótmæltu. Í þeim mótmælum fór einhver þeirra yfir strikið og fékk liðið þar með á sig aðra brottvísun. Voru þar með fjórir leikmenn Hauka inni á eftir að vítakastið hafið verið endurekið en úr því skoraði Elmar Erlingsson, 23:27. Talsverðan tíma tók að greiða úr málum áður en vítakastið var tekið.

Gauti Gunnarson var frábær og skoraði 11 mörk. Hér eitt þeirra í uppsiglingu án þess að Magnús Gunnar Karlsson markvörður fái rönd við reist. Ljósmynd/J.L.Long

Botninn datt úr

Eftir allt þetta var mesti vindurinn úr leiknum. Eyjamenn náðu fljótlega sjö marka forskoti sem þeir héldu meira og minna til loka leiksins.

Rétt er að hæla stuðningsmönnum ÍBV fyrir góða mætingu á leikinn á Ásvöllum.

Mörk Hauka: Guðmundur Bragi Ástþórsson 9/1, Guðmundur Hólmar Helgason 3, Stefán Rafn Sigurmannsson 3, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 3, Birkir Snær Steinsson 3, Össur Haraldsson 3, Adam Haukur Baumruk 2, Ólafur Ægir Ólafsson 2, Tjörvi Þorgeirsson 2, Þráinn Orri Jónsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 5, 26,3% – Magnús Gunnar Karlsson 5, 18,1%.

Mörk ÍBV: Gauti Gunnarsson 11, Daniel Esteves Vieira 6, Nökkvi Snær Óðinsson 6, Elmar Erlingsson 5/3, Dagur Arnarsson 4, Kári Kristján Kristjánsson 4, Ísak Rafnsson 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 12, 31,6% – Pavel Miskevich 0.

Tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -