ÍBV færðist upp í hóp með Haukum og Val í annað til fjórða sæti Olísdeildar karla í handknattleik í dag með öruggum sigri á Þór, 30:24, í íþróttamiðstöðinni í Vestamannaeyjum. ÍBV hefur þar með sex stig að loknum fjórum umferðum eins og Valur og Haukar en liðin eru tveimur stigum á eftir Aftureldingu.
Eyjamenn voru með tögl og hagldir í leiknum frá byrjun til enda. Petar Jokanovic markvörður átti stórleik sem aðstoðaði verulega við að halda Þórsurum í hæfilegri fjarlægð lengst af fyrri hálfleiks auk góðs varnarleiks. Staðan var 17:13 að honum loknum.
Eyjamenn héldu Þórsurum í greipum sínum allan síðari hálfleikinn þannig að aldrei lék vafi á hvort liðið væri sterkara né færi með sigur af hólmi.
Kári Kristján Kristjánsson lék sinn fyrsta leik á tímbilinu eftir félagaskipti til Þórs í vikunni. Hann skoraði þrjú mörk á gamla heimavellinum með sínum nýju samherjum.
Mörk ÍBV: Elís Þór Aðalsteinsson 7, Jakob Ingi Stefánsson 7, Sveinn José Rivera 4, Anton Frans Sigurðsson 4, Daníel Þór Ingason 3, Dagur Arnarsson 3, Andri Erlingsson 1, Ívar Bessi Viðarsson 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 17/2, 43,6% – Morgan Goði Garner 1, 33%.
Mörk Þórs: Þórður Tandri Ágústsson 4, Oddur Gretarsson 3/1, Arnór Þorri Þorsteinsson 3, Aron Hólm Kristjánsson 3, Hákon Ingi Halldórsson 3, Kári Kristján Kristjánsson 3, Brynjar Hólm Grétarsson 2, Arnviður Bragi Pálmason 1, Igor Chiseliov 1, Hafþór Már Vignisson 1.
Varin skot: Nikola Radovanovic 11/1, 31,4% – Patrekur Guðni Þorbergsson 4/1, 44,4%.