Ekkert verður af viðureign sænska liðsins IFK Kristianstad og Ademar León í 16-liða úrslitum Evrópudeildar EHF í handknattleik karla í kvöld. Smit kórónuveiru greindist hjá nokkrum leikmönnum Ademar León á dögunum og var viðureigninni þar með slegið á frest. Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hefur ákveðið að leikirnir fari fram í næstu viku og verði háðir á heimavelli Kristianstad. Með liðinu leika íslensku handknattleiksmennirnir Ólafur Andrés Guðmundsson og Teitur Örn Einarsson.
Stefnt er á að leikið verði tvo daga í röð nema að félögin sjálf komi sér saman um að gefa eins dags frá milli. Óvíst er hver niðurstaðan verður en Kristianstad er um þessar mundir að glíma við Malmö í átta liða úrslitum um sænska meistaratitilinn. Reyndar stendur Kristianstad vel að vígi með tvo vinninga gegn engum hjá Malmö, en kálið er ekki sopið.
Sjö leikir verða á dagskrá 16-liða úrslita Evrópudeildarinnar í kvöld, allt fyrri leikir:
GOG (Viktor Gísli Hallgrímsson) – CSKA.
Montpellier – Kadetten (Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari).
Nexe – Rhein Neckar Löwen (Ýmir Örn Gíslason).
Eurofarm Pelister – Magdeburg (Ómar Ingi Magnússon).
Medvedi – Nimes.
Aon Fivers – Füchse Berlin.
Sporting – Wisla Plock.
Seinni leikir 16-liða úrslita fara fram eftir viku.