Færeyingar unnu Ítala með fjögurra marka mun, 38:34, í síðari vináttuleik þjóðanna í handknattleik karla að viðstöddum nærri þrjú þúsund áhorfendum í rífandi góðri stemningu í þjóðarhöllinni við Tjarnir í Þórshöfn í kvöld. Færeyska liðið var marki yfir í hálfleik, 18:17. Ítalir, sem verða fyrsti andstæðingur íslenska landsliðsins á EM á föstudag, unnu fyrri viðureignina á sama stað á föstudaginn, 36:34.
Færeyska liðið var sterkara í leiknum í dag og vann sanngjarnan sigur. Liðið fer með sigur í farteskinu til Óslóar í vikunni þar sem keppni á Evrópumótinu bíður landsliðsins. A.m.k. sjö þúsund Færeyingar fylgja landsliðinu til Noregs.
Elias Ellefsen á Skipagøtu, fremsti handknattleiksmaður Færeyinga, tók ekki þátt í leiknum í kvöld, ekkert fremur en í fyrri viðureigninni á föstudagskvöld. Hann er jafna sig af axlarmeiðslum og leggur alla áherslu á að ná sér góðum fyrir Evrópumótið.
Mörk Færeyja: Hákun West av Teigum 7/1, Leivur Mortensen 7/1, Bjarni í Selvindi 4, Pauli Mittún 5, Ísak Vedelsbøl 5, Teis Horn Rasmussen 4, Vilhelm Poulsen 3, Rói Ellefsen á Skipagøtu 2, Óli Mittún 1.
Mörk Ítalíu: Marco Mengon 7, Simone Mengon 5, Christian Manojlovic 4, Mikael Helmersson 4, Tommaso Romei 4, Gianluca Dapiran 2, Giacomo Savini 2, Davide Pugliese 2, Nicolo D’Antino 1, Jeremi Pirani 1.
Tölfræði frá Portal.fo.
EM karla 2026 – leikdagar, leikstaðir, leiktímar



