Nokkrir Færeyingar komu gagngert til landsins í morgun til þess að styðja Valsliðið, þá sérstaklega frændurna og landsliðsmennina Allan Norðberg og Bjarna í Selvindi, í viðureign Vals gegn Aftureldingu í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Olísdeildar karla í handknattleik sem fram fer á Hlíðarenda í kvöld og hefst klukkan 19.30.
Um er að ræða hóp frá bænum Strendur syðst á vesturströnd Skálafjarðar á Austurey hvaðan þeir Allan og Bjarni eru en þeir léku báðir með félaginu sem þar er, StÍF, fyrir nokkrum árum.
Eftir því sem handbolti.is kemst næst ætla fleiri Færeyingar sem búa hér á landi að slást í hópinn með færeysku stuðningsmönnum Vals og verður vafalaust glatt á hjalla eins og von vísa er þegar frændur okkar koma saman.

Fleiri Færeyingar
Fleiri Færeyingar taka þátt í leiknum því Afurelding teflir einnig fram tveimur eins og Valur Annars vegar Halli Arasyni og hinsvegar Sveinur Ólafssyni. Ekki er hægt að útiloka að Færeyingar muni einnig leynast í stuðningsmannahópi Aftureldingar í kvöld eins og stundum áður á keppnistímabilinu.
Gríðarlegur áhugi
Gríðarlegur áhugi er fyrir handknattleik í Færeyjum um þessar mundir vegna framúrskarandi árangurs landsliðanna á undanförnum árum. Færri hafa komist að en vilja í nýju þjóðarhöllina, Við Tjarnir, á landsleiki auk þess sem hundruðir og jafnvel þúsundir hafa ferðast út fyrir landssteinana til þess að styðja landsliðin á útivöllum.
Fánadagur
Þess má að lokum geta að í dag, 25. apríl, er fánadagur í Færeyjum en 25. apríl 1940 viðurkenndu Bretar, sem þá höfðu hertekið Eyjarnar, færeyska fánann, (merkið á færeysku), sem réttmætan þjóðfána.