Alexander Petersson fagnaði sigri í fyrsta leik sínum fyrir Flensburg í meira en áratug í kvöld þegar Flensburg vann Meshkov Brest, 28:26, í Brest í Hvíta-Rússlandi en leikurinn var liður í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla.
Flensburg komst í efsta sæti riðilsins með þessum sigri. Liðið hefur nú 15 stig að loknum níu leikjum og er tveimur stigum á undan Vive Kielce sem á leik til góða á þýska liðið. Brest er í þriðja sæti með níu stig.
Liðin voru jöfn í fyrri hálfleik og skiptust á um að vera yfir. Þegar leið síðari hálfleik var Flensburg-liðið sterkara og vann sanngjarnan sigur.
Alexander átti tvo markskot og skoraði úr öðru. Hann var öflugur í vörn liðsins.
Sigurinn er enn athyglisverðari í ljósi þess að talsvert er um meiðsli í herbúðum Flensburg. Aðeins 13 leikmenn voru á skýrslu en á meðal þeirra sem tóku ekki þátt í leiknum í kvöld vegna meiðsla er nýkrýndur heimsmeistari, Lasse Svan. Hann tognaði á kálfa í úrslitaleik Dana og Svía um heimsmeistaratitilinn á sunnudaginn og verður frá keppni um tíma.
Mörk Meshkov Brest: Marko Panic 5, Vladimir Vranjes 5, Mikita Vailupau 5, Andrei Yurynok 3, Pavel Paczkowski 2, Jaka Malus 2, Viachaslu Shumak 1, Stas Skube 1, Sandro Obranovic 1, Artsiom Selvasiuk 1.
Mörk Flensburg: Göran Johannessen 9, Magnus Röd 5, Marius Steinhauser 3, Hampus Wanne 3, Simon Hald 3, Mads Mensah 2, Alexander Petersson 1, Lasse Möller 1.
Svíinn Jim Gottfridsson skoraði ekki mark fyrir Flensburg en átti níu stoðsendingar.