Valsmenn fara með eins marks forskot til Sabac í Serbíu til síðari viðureignar sinnar við RK Metaloplastika Elixir á næsta laugardag. Valur vann heimaleikinn í kvöld, 27:26, eftir jafna stöðu í fyrri hálfleik, 11:11. Fjölda fólks dreif að N1-höll Valsara í kvöld og prýðileg stemning myndaðist í hörkuleik.
Metaloplastika Elixir var sterkara liðið í fyrri hálfleik en aldrei varð samt mikill munur á liðunum. Valsmenn reyndu að keyra upp meiri hraða í síðari hálfleik. Það dugði ekki til gegn serbneska liðinu sem lét ekki teyma sig út í leik sem það réði ekki við.
Benedikt Gunnar Óskarsson kom Val þremur mörkum yfir úr vítakasti, 25:22, sem hann vann sex mínútum fyrir leikslok. Þrátt fyrir ákafar tilraunir þá tók Valsliðinu ekki að halda því forskoti né að bæta við það gegn hörkugóðu liði Metaloplastika sem eitt sinn átti allra besta félagslið heims og jafnvel sögunnar.
Magnús Óli Magnússon skoraði 27. mark Vals þegar 30 sekúndur voru eftir af leiktímanum. Domagoj Aliloviv minnkað muninn í eitt mark rétt áður en lokaflautið gall.
Afar fróðlegt verður að fylgjast með síðari viðureign liðanna í Sabac á laugardaginn.
Mörk Vals: Benedikt Gunnar Óskarsson 6/2, Róbert Aron Hostert 4, Magnús Óli Magnússon 4, ÚIfar Páll Monsi Þórðarson 3, Tjörvi Týr Gíslason 2, Allan Norðberg 2, Alexander Pettersson 2, Ísak Gústafsson 1, Andri Finnsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 17/3, 39,5%.
Mörk RK Metaloplastika Elixir Sabac: Vojislav Brajovic 8, Domagoj Alolovic 6, Uroš Pavlovic 3, Mateja Dodic 2/1, Igor Milovanovic 2, Uroš Simic 2, Brana Mirkovic 1, Milija Papovic 1, Milan Dakic 1.
Varin skot: Darko Arsic 14, 34,1%.