Á ársþingi HSÍ í júní voru samþykktar nokkrar breytingar á skipan U-liðanna sem hafa verið aðsópsmikil í báðum Grill 66-deildunum undanfarin ár. Sitt hefur hverjum sýnst um skipan þessara liða þar sem innan ákveðinna marka hafa sterkir leikmenn úr Olís-deildunum verið gjaldgengir í U-liðunum í Grill 66-deildunum. Það hefur gert að verkum að fyrir hefur komið að liðin hafa verið missterk á milli leikja og sett þannig strik í reikning þeirra liða í Grill-deildunum sem hafa verið að berjast um að komast upp í Olís-deildirnar. Eins þóttu fyrrgreindir leikmannalistar gefa þeim félögum sem voru með fjölmenna leikmannahópa óþarflega mikið forskot á minni og fámennari félögin.
U-liðin geta ekki flust á milli deilda en þar sem styrkleiki þeirra hefur á tíðum verið misjafn milli leikja hefur þátttaka þeirra á tíðum skapað ójafnvægi.
Í aðdraganda þingsins hafði nefnd á vegum HSÍ farið yfir hvaða leiðir til breytinga væru bestar.
Að sögn Róberts Geirs Gíslasonar, framkvæmdastjóra HSÍ, var á þinginu ákveðið að fella niður alla nafnalista sem hafa verið tilkynntir áður en deildarkeppnin hefst yfir þá leikmenn sem þau hyggjast nota í U-liðunum. Þess í stað hefur sú skylda verið lögð á herðar forráðamanna U-liðanna að þau hafi í leik hverjum tíu uppalda leikmenn innan keppnishópsins. Undir þá skilgreiningu heyra leikmenn sem hafa a.m.k. leikið þrjú keppnistímabil með félagi þess U-liðs sem þeir leika fyrir þá stundina. Til viðbótar mega fjórir leikmenn sem léku með aðalliði viðkomandi félags leikheimild með U-liðinu í næstu viðureign þess eftir aðalliðsleikinn, að uppfylltum aldursskilyrðum, þ.e. að vera undir 23 ára aldri. Þó getur stjórn HSÍ veitt undanþágu frá þessari reglu í sérstökum undantekningartilfellum, að sögn Róberts Geirs.
Biðtíminn styttur
Samhliða þessari breytingu var félögum auðveldað að eiga samvinnu við svokölluð venslafélög. Var það m.a. gert með því að stytta biðtímann sem þarf að líða frá þeim tíma sem leikmaður var síðast gjaldgengur með venslaliði og þar til honum verður heimilt að vera þátttakandi í leik með liðinu sem hann er samningsbundinn. Einnig var styttur sá lágmarkstími sem leikmaður verður að vera í venslaliði áður en hægt er að kalla hann til baka. Hingað til hefur gilt 30 daga regla en hefur nú verður stytt verulega.
Keppni í Grill 66-deildunum hefst föstudaginn 18. september.
Róbert segist vera spenntur að sjá hvaða áhrif þessar breytingar hafa en ljóst er að hans mati að þegar hafi breytingin vegna venslafélaganna skotið styrkari rótum undir Kríu og Vængi Júpíters sem verða nýliðar í Grill 66-deild á komandi keppnistímabili.