- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fáum að spila handbolta sem skiptir mestu

Arnór Þór Gunnarsson tekur tímabundið við þjálfun Bergischer HC. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Aðstæðurnar eru sérstakar þessa daga en eins og síðast þegar kom í leikinn við Portúgal þá er þetta bara test, sóttkví og æfingar. Maður verður að taka þessu,“ sagði Arnór Þór Gunnarsson, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í gærmorgun. Hann var þá að mæta á sína fyrstu landsliðsæfingu eftir að hafa misst af þeirri fyrstu á laugardaginn þar sem hann beið niðurstöðu úr skimun eftir að hafa komið heim fyrr þann dag.


Arnór Þór eins og aðrir fór síðan á tvær æfingar með landsliðshópnum í gær og hélt síðan út í rauðabítið í morgun áleiðis til Portúgal þar sem íslenska landsliðið mætir portúgalska landsliðinu í undankeppni EM á miðvikudag í Porto. „Þetta er sérstakt en við fáum að leika handbolta og það skiptir mestu máli um þessar mundir. Þeirra forréttinda njóta ekki allir,“ sagði Arnór Þór.

Vinnum vel úr stöðunni

Skarð er fyrir skildi að Aron Pálmarsson verður ekki með landsliðinu að þessu sinni. Arnór Þór sagði það svo sannarlega bagalegt en ekki megi dvelja um of við það. Vinna verði úr þeirri stöðu sem fyrir hendi sé og gera það besta úr henni.

„Auðvitað er missir af einum besta leikmanni heims í liðinu en við verðum að laga okkur að aðstæðum og vinna úr þeirri stöðu sem við erum í. Búa okkur vel undir leikina sem eru framundan, bæði í undankeppni EM og eins þegar kemur að HM. Við verðum að vera saman sem lið hverjir sem skipa það hverju sinni,“ segir Arnór Þór sem reiknar með að vegna þeirra fáu æfinga sem eru framundan hjá landsliðinu þá muni talsvert stærri hluti undirbúningsins fara fram á fundum en annars.

Nýr samningur – breytt matarræði

Arnór Þór skrifaði undir nýjan samning við Bergsicher HC skömmu fyrir áramót. Samningurinn er til tveggja ára, fram á mitt árið 2023 með möguleika á uppsögn vorið 2022. Arnór Þór segist hafa velt framhaldinu fyrir sér um skeið, ekki síst vegna meiðsla sem hafa hrjáð hann í mjöðm. Eftir að hafa breytt talsvert um matarræði dró úr verkjum í mjöðminni sem varð þess valdandi að hann ákvað slá til og halda áfram hjá Bergischer sem hann hefur leikið með frá 2012.

Arnór Þór Gunnarsson á æfingu landsliðsins í Víkinni í gærmorgun. Mynd/HSÍ


„Ég tók talsvert til í matarræðinu og það hjálpaði mikið til þótt ég finni aðeins fyrir ennþá í mjöðminni. En það er mikið minna en áður. Nú get ég að minnsta kosti gengið óhaltur út úr keppnishöllinni eftir æfingar og leiki. Áður fyrr vera talsvert mál að stíga inn í bílinn,“ segir Arnór Þór sem hugar nú betur að jafnvægi milli fitu, kolvetnis og próteins í því sem hann leggur sér til munns en hann gerði áður. „Þetta hjálpar mér að minnsta kosti og þess vegna held ég þessu áfram.“

Erfitt að kveðja

Arnóri Þór og Jovönu Lilju Stefánsdóttur, fæddist drengur 29. nóvember. Það var ástæðan fyrir að hann fékk leyfi til að koma til landsins hérnamegin við áramótin en ekki 30. desember eins og aðrir landsliðsmenn íslenskir sem voru að leika í Þýskalandi á milli hátíðanna. Arnór Þór segir það ekki hafa verið auðvelt að kveðja konuna, nýfætt barn og átta ára dóttur við þessar aðstæður. Ekki síst þar sem nánast ríkir útgöngubann í Þýskalandi um þessar mundir. Þau Jóvana séu hinsvegar svo lánsöm að eiga sterkar fjölskyldur sér að baki sem séu tilbúnar að létta undir þegar mest á ríður.

Eigum góða bakhjarla

„Mamma mín [Jóna Arnórsdóttir] fer út til Þýskalands 6. janúar og verður hjá Jóvönu meðan ég verð á HM. Það er ekkert auðvelt að vera með mánaðar gamalt barn og annað átta ára þegar allt er nánast í lás í Þýskalandi. Ég er mjög þakklátur mömmu fyrir að hlaupa undir bagga. Eins erum við þakklát fyrir að tengdamamma [Diana Jankovic] gat verið hjá okkur í desember og létt verulega undir. Það er mikið lán að eiga góða bakhjarla sem alltaf er hægt að leita til,“ sagði Arnór Þór Gunnarsson, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í gær og víst er að hægt er að taka undir orð hans.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -