Orri Freyr Þorkelsson, landsliðsmaður í handknattleik, tryggði Sporting sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í síðustu viku þegar hann jafnaði metin nokkrum sekúndum fyrir leikslok gegn Wisla Plock í Póllandi, 29:29, í síðustu umferð riðlakeppninnar. Markið mikilvæga var valið mark umferðinnar í Meistaradeildinni. Tvö efstu liðin í hvorum riðla sitja yfir í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar og taka sæti í átta liða úrslitum.
„Það sem maður tekur samt út úr þessu öllu saman er sú vinna sem við höfum lagt í leikina í vetur sem skilað okkur þeim árangri að komast beint í átta liða úrslitin sem er frábært. Auðvitað var gaman að skorað markið en á heildina litið var árangur okkar geggjaður,“ segir Orri Freyr í samtali við handbolta.is en Orri Freyr er staddur í Grikklandi með íslenska landsliðinu sem leikur við Grikki á morgun.
„Ég fékk boltann í mjög góðu færi og þrumaði bara á markið. Ég hugsaði svo sem ekki mikið annað en að skora. En skemmtilegt móment sem maður gleymir seint,“ segir Orri Freyr um jöfnunarmarkið sex sekúndum fyrir leikslok.
Byrjað í febrúar en lokið í mars
Eins og kom fram á handbolti.is í morgun þá varð Sporting deildarmeistari í Portúgal á sunnudaginn eftir sérstakan leik í síðustu umferð gegn á Póvoa AC Bodegão, 33:23, á útivelli. Viðureignin hófst í byrjun febrúar en var frestað eftir 26 mínútur vegna þakleka. Þráðurinn var síðan tekinn upp á sunnudagskvöld og leiknar þær nærri 34 mínútur sem eftir voru.
„Það var áhugavert að taka þátt í leik sem hófst í febrúar og lauk í mars, mánuði síðar,“ segir Orri Freyr Þorkelsson.
Lengra viðtal við Orra Frey er að vinna í myndskeiði hér fyrir ofan.