Komið hefur upp úr dúrnum að Hörður á Ísafirði veitti Carlos Santos þjálfara leyfi til þess að ræða við ÍBV. Leyfið var síðan dregið til baka þegar í ljós kom ÍBV vildi ekki kaupa þjálfarann frá Herði á 3,5 milljónir kr. Santos á ár eftir af samningi sínum við Ísafjarðarliðið. Þetta kemur fram á Vísir í dag.
Þar kemur ennfremur fram að forráðamenn Harðar hafi kvartað við HSÍ vegna þessa meinta gruns um að samskipti ÍBV og Santos hafi haldið áfram eftir að Hörður afturkallaði leyfi þjálfarans til þess að ræða við forráðamenn ÍBV. Óska Harðarmenn eftir að HSÍ refsi ÍBV.
Kristaltært að greiðsla fylgdi
„Upphaflega fékk ÍBV leyfi til að tala við Carlos. Fyrir mér var það kristaltært að ef þeir næðu saman þá fylgdi því greiðsla til okkar. Að við værum ekki að senda hann frítt héðan og sitja eftir þjálfaralaus, fimm mínútum fyrir tímabil,“ segir Vigdís Pála Halldórsdóttir formaður handknattleiksdeildar Harðar í samtali við Vísir.
Frumkvæðið hjá Santos
Garðar Benedikt Sigurjónsson formaður handknattleikdeildar ÍBV þvertekur í samtali við Vísir fyrir að rætt hafi verið Santos eftir að Hörður dró til baka heimild sína til samtals á milli þjálfarans og ÍBV. Garðar segir Santos hafa haft frumkvæði að setja sig í samband við ÍBV. Þegar í ljós hafi komið að Hörður vildi 3,5 milljónir fyrir þjálfarann hafi viðræðum ekki verið framhaldið.
Stendur ekki til boða
„Ég hef aldrei boðið honum samning, eða beðið hann um að segja upp sínum samningi, og við erum ekki að fara að bjóða honum samning,” segir Garðar Bendikt Sigurjónsson formaður handknattleiksdeildar ÍBV í samtali við Vísir.