- Auglýsing -
Nokkur félagaskipti hafa gengið í gegn á síðustu dögum eftir því sem greint er frá á félagaskiptasíðu HSÍ undanfarna daga. Handbolti.is hefur reglulega farið yfir helstu félagaskipti í sumar. Hér fyrir neðan er nokkurra þeirra getið sem hafa verið opinberuð síðustu daga.
- Markvörðurinn Margrét Ýr Björnsdóttir hefur fengið skipti frá Aftureldingu yfir í raðir liðs HK í Kópavogi. Hún lék með HK á Ragnarsmótinu í síðustu viku.
- Brynjar Jökull Guðmundsson og Matthías Leifsson hafa skipt yfir til Vængja Júpiters sem leikur í Grill66-deildinni. Brynjar Jökull kemur til Vængjanna frá Gróttu en Matthías frá Englandi. Viktor Orri Þorsteinsson, sem lék með Kríu, hefur einnig gengið til liðs við Vængi Júpiters.
- Felix Már Kjartansson sem lék með HK hefur fengið félagaskipti til Neistans í Færeyjum en liðið þjálfar Arnar Gunnarsson annað tímabilið í röð.
- Bjartur Már Guðmundsson hefur einnig flust til Færeyja og fengið félagaskipti frá Víkingi til StÍF í Færeyjum sem leikur í úrvalsdeild þar í landi eins og Neistin.
- Róbert Örn Karlsson hefur verið lánaður til HK frá Fram. Hjá HK hittir Róbert fyrir þjálfarana Sebastian Alexandersson og Guðfinn Kristmannsson. Róbert Örn lék undir þeirra stjórn hjá Fram á síðasta keppnistímabili.
- Arnór Róbertsson línumaður hefur yfirgefið Fram og gengið til liðs við HK. Arnór kom nokkuð við sögu hjá Fram í Olísdeildinni á síðasta keppnistímabili en var einnig talsvert með U-liði Fram. Arnór var hjá Þrótti þegar meistaraflokkur félagsins var sleginn af. Faðir Arnórs, Róbert Sighvatsson, var um árabil atvinnumaður í Þýskalandi og landsliðsmaður.
- Serbneski unglingalandsliðsmaðurinn Aleksa Stefanovic hefur yfirgefið Hörð á Ísafirði og fengið félagaskipti til ótilgreinds félags í heimalandinu sínu.
- Daninn ungi, Jonathan Werdelin, sem var í herbúðum ÍBV á síðasta keppnistímabili er fluttur til Danmerkur eftir eins árs veru í Vestmannaeyjum.
- Auglýsing -