Viktor Gísli Hallgrímsson og samherjar í franska liðinu Nantes féllu í kvöld úr leik í Meistaradeild Evrópu í handknattleik þegar þeir töpuðu á heimavelli fyrir pólska liðinu Wisla Plock, 30:29. Vítakeppni þurfti til þess að knýja fram úrslit. Leikmenn Wisla Plock skoruðu úr fimm vítaköstum en Nantes úr fjórum. Ignacio Garcia, markvörður Wisla Plock, varði vítakast frá Kauldi Odriozola leikmanni Nantes.
Jafnt var að loknum hefðbundnum leiktíma, 25:25. Fyrri viðureign liðanna í Póllandi fyrir viku lauk einnig með jafntefli, 32:32.
🔵⚪️ Przemyslaw Krajewski secures @SPRWisla their #ehfcl quarter-final spot with a pin-point final penalty – look at the celebrations! 🥳 pic.twitter.com/PGtnL8BAFN
— EHF Champions League (@ehfcl) March 29, 2023
Ef marka má tölfræðisamantekt á vef Handknattleikssambands Evrópu, EHF, þá varði Viktor Gísli þrjú skot. Hann hóf leikinn í mark Nantes.
Nantes liðið byrjaði af miklum krafti á heimavelli í kvöld og virtist ætla að tryggja sér öruggan sigur. Forskot liðsins var fjögur til fimm mörk lengi vel, m.a. 13:8, þegar fimm mínútur voru til hálfleiks. Nantes var þremur mörkum yfir í hálfleik, 14:11.
Pólska liðið gaf ekki þumlung eftir í síðari hálfleik. Leikmenn Nantes jöfnuðu metin, 25:25, rétt áður en leiktíminn var úti. Vegna þess að útivallarmarkareglan hefur verið lögð niður í keppni á vegum EHF var farið rakleitt í vítakeppni.
Wisla Plock mætir Magdeburg í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í maí.
Rúmensku meistararnir Dinamo Búkarest unnu Kiel í Þýskalandi í kvöld, 32:31. Sigurinn dugði liðinu skammt. Kiel vann leikinn í Búkarest í síðustu viku, 41:28.
Kiel leikur við frönsku meistarana PSG í átta liða úrslitum.