Til stóð að gríska liðið Olympiacos mætti Drama í fyrstu umferð úrslita grísku úrvalsdeildarinnar í gær á heimavelli. Leiknum var hinsvegar frestað til að gefa leikmönnum Olympiacos tækifæri til þess að safna kröftum fyrir Íslandsferðina. Þeir komu til landsins rétt eftir hádegið í dag, í góðum tíma fyrir átökin við Val.
Eftir því sem næst verður komist æfir Olympiacosliðið í Mýrinni síðdegis í dag. Þjálfari Olympiacos er Željko Babić einn margra fyrrverandi landsliðsþjálfara Króatíu. Babić tók við þjálfun liðsins í byrjun febrúar.
Olympiacos og Valur mætast í fyrri úrslitaleik Evrópubikarkeppninnar í N1-höll Vals á laugardaginn klukkan 17. Síðari viðureignin verður í Chalkida í Grikklandi viku síðar. Samanlagður sigurvegari leikjanna tveggja verður Evrópubikarmeistari.
Ennþá er hægt að fá miða á leikinn á laugardaginn – miðasala.
Óvíst er hvenær fyrri leikur Olympiacos og Drama, í undanúrslitum úrslitakeppni grísku deildarinnar, verður settur á dagskrá. Olympiacos varð deildarmeistari á dögunum.
Í hinni viðureign undanúrslita eigast við AEK Aþena og PAOK frá Þessalóníku. AEK vann fyrri leikinn örugglega, 31:23. Síðari leikurinn verður á sunnudaginn í Þessalóníku.