„Við fengum að sofa út í morgun svo ég reikna með að menn séu bara ferskir,“ segir Viggó Kristjánsson markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins í leiknum við Egypta í gærkvöld þegar hanndbolti.is hitti hann að máli laust eftir hádegið í dag í Zagreb. Viggó skoraði níu mörk.
Framundan er viðureign við heimamenn í landsliði Króata annað kvöld. Króatar verða að vinna til þess að halda í vonina um sæti í átta liða úrslitum. Íslenska horfir einnig til að vinna leikinn og innsigla sæti í átta liða úrslitum. Líklegt er viðureignin verði stál í stál.
„Króatar eru í þeirri stöðu að verða að vinna leikinn til þess að eiga möguleika á að að komast í átta liða úrslit. Að sama skapi þá viljum við vinna riðilinn. Við verðum að búa okkur eins vel undir viðureignina og hingað til og mæta af sama krafti. Þá verður um hörkuleik að ræða. Markmið okkar er skýrt; að vinna leikinn,“ segir Viggó ákveðinn og bætir við.
Væri gaman að slökkva í vonum þeirra
„Króatar hafa ekki náð að sýna sitt allra besta á mótinu fram til þessa auk þess sem þeir hafa misst menn út vegna meiðsla. Við megum hinsvegar ekki gleyma því að þetta verða Króatar á heimavelli. Slíkir leikir hafa aldrei verið auðveldir. Við unnum þá í janúar á síðasta ári og EM og við verðum að endurtaka leikinn á morgun. Þeir eiga von um sæti í átta liða úrslitum með sigri. Það væri gaman að slökkva á þeirri von,“ segir Viggó Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik.
Lengra viðtal við Viggó er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.