„Það var ekki margt sem vantaði uppá, helst var að við fengum of mörg auðveld mörk á okkur. Sérstaklega í upphafi fyrri hálfleiks og í byrjun síðari hálfleiks þá skiluðum við okkur ekki nægilega vel til baka í vörnina. Auk þess fannst mér miðjan vera á stundum of mikið opin hjá okkur,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U20 ára landsliðs kvenna eftir tveggja marka tap, 33:31, í krossspilsleik um sæti fimm til átta á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Jane Sandanski Arena í Skopje í dag.
Ágúst sagðist hafa bundið ákveðnar vonir við að íslenska liðið væri að ná frumkvæðinu um miðjan síðari hálfleik þegar það komst tvisvar sinnum tveimur mörkum yfir. „Þá fengum við okkur auðveld mörk eftir hraðaupphlaup sem var erfitt fyrir markverðina að ráða við. Því fór sem fór. Þetta var hörkuleikur allan tíman og skemmtilegur handboltaleikur. Það er hinsvegar ljóst að varnarleikurinn verður að vera betri í næsta leik til þess að við vinnum þá viðureign,“ sagði Ágúst Þór.
Nánar er rætt við Ágúst Þór í myndskeiðsviðtali efst í greininni.
Íslenska landsiðið mætir landsliði Sviss í leiknum um 7. sæti á sunnudaginn klukkan átta árdegis á íslenskum tíma. Sviss tapaði fyrir Portúgal, 30:25 í hinum krossspilsleiknum í kvöld.
Aftur tap eftir háspennuleik – Ísland leikur um 7. sætið á HM
HMU20: Dagskrá og úrslit síðustu leikdagana