FH-ingar fóru illa með Valsmenn í viðureign liðanna í N1-höllinni í kvöld og unnu afar öruggan sigur, 32:27, eftir að hafa verið hvað eftir annað með átta til 10 marka forskot í síðari hálfleik. Segja má að Valsliðið hafi beðið skipbrot á heimavelli, nokkuð sem ekki gerist oft á þeim bæ. FH hafði sex marka forskot í hálfleik, 18:12.
Framúrskarandi varnarleikur og frábær frammistaða Jóns Þórarins Þorsteinssonar markvarðar FH varð til þess að kveða leikmenn Vals í kútinn í fyrri hálfleik og framan af þeim síðari. Jón Þórarinn, sem kom til FH í sumar frá Selfossi, lokaði markinu á köflum í fyrri hálfleik og var með 50% hlutfallsmarkvörslu.

Allt annað var að sjá til FH-inga í kvöld en gegn Fram fyrir viku, nánast sama hvar var á leik liðsins litið. Ekki aðeins var vörn og markvarsla mikið betri, hún var nánast engin gegn Fram, heldur var mikið meira áræðni í sóknarleiknum. Munar miklu fyrir FH-inga að fá Birki Benediktsson inn í liðið þótt hann sé ekki enn kominn í sitt besta leikform.

Valsliðið kom hreinlega á óvart að þessu sinni, ekki síst í ljósi þeirra góðu kafla sem liðið sýndi framan af fyrri og síðari hálfleik gegn Stjörnunni fyrir viku. Vissulega er skarð fyrir skildi í fjarveru Magnúsar Óla Magnússonar og Róberts Arons Hostert. Það afsakar ekki frammistöðuna að þessu sinni á heimavelli. Þar eru leikmenn Vals ekki vanir að láta í minni pokann, ekki síst með jafn afgerandi hætti og að þessu sinni.
Mörk Vals: Dagur Árni Heimisson 7/4, Andri Finnsson 4, Bjarni í Selvindi 3, Viktor Sigurðsson 2, Þorgils Jón Svölu Baldursson 2, Gunnar Róbertsson 2, Daníel Örn Guðmundsson 2, Agnar Smári Jónsson 2, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 1, Allan Norðberg 1, Kristófer Máni Jónasson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 11/1, 28,9% – Jens Sigurðarson 2, 28,6%.
Mörk FH: Símon Michael Guðjónsson 8/3, Birgir Már Birgisson 6, Jón Bjarni Ólafsson 4, Birkir Benediktsson 4, Garðar Ingi Sindrason 4/1, Einar Örn Sindrason 3, Ómar Darri Sigurgeirsson 3.
Varin skot: Jón Þórarinn Þorsteinsson 14/2, 41,2% – Daníel Freyr Andrésson 2/1, 22,22%.