FH-ingar fór á kostum í Sethöllinni á Selfossi í kvöld þegar þeir unnu afar sannfærandi sigur á liði Selfoss, 27:22. Þar með kemur til oddaleiks á milli liðanna á fimmtudagskvöldið í Kaplakrika. Flautað verður til leiks klukkan 19.30.
FH-liðið byrjaði leikinn af miklum krafti og skoraði fimm fyrstu mörkin áður en Selfoss tókst að skora sitt fyrsta mark. Í framhaldinu tókst Selfoss að minnka muninn í 7:4, áður en FH sagði skilið við heimamenn og komst átta mörkum yfir. Frábær varnarleikur af hálfu FH sló Selfossliðið algjörlega út af laginu.
Heimamönnum féll allur ketill í eld. Þeir voru tíu mörkum undir eftir fyrri hálfleik, 19:9, eftir að hafa skotið illa á mark FH og tapað boltanum margoft á einfaldan hátt. FH-liðið skoraði mörg mörk eftir hraðaupphlaup auk þess sem Einar Örn Sindrason fór á kostum.
Upphafsmínútur síðari hálfleiks voru einnig frábærar af hálfu FH-liðsins. Það gerði alveg út um allar vonir Selfyssinga og enn var tíu marka munur, 22:12, þegar 20 mínútur voru til leiksloka.
Selfossliðinu tókst aðeins að klóra í bakkann undir lokin en voru fjarri því að ógna sigri FH-liðsins.
Mörk Selfoss: Karolis Stropus 4, Alexander Már Egan 3, Guðmundur Hólmar Helgason 3, Richard Sæþór Sigurðsson 3, Hannes Höskuldsson 3, Hergeir Grímsson 2, Tryggvi Þórisson 2, Ragnar Jóhannsson 1, Sverrir Pálsson 1.
Varin skot: Sölvi Ólafsson 5, 38,5% – Vilius Rasimas 4, 17,4%.
Mörk FH: Einar Örn Sindrason 7, Birgir Már Birgisson 5, Jakob Martin Ásgeirsson 5, Leonharð Þorgeir Harðarson 2, Ágúst Birgisson 2, Ásbjörn Friðriksson 2/1, Daníel Matthíasson 1, Jóhann Birgir Ingvarsson 1, Jón Bjarni Ólafsson 1.
Varin skot: Phil Döhler 9, 31%.
Handbolti.is fylgdist með leikjum kvöldsins á leikjavakt.