-Auglýsing-

FH-ingar fóru heim með bæði stigin

- Auglýsing -

Eftir að hafa aðeins fengið eitt stig út úr þremur síðustu leikjum sínum í Olísdeildinni þá tókst FH að leggja lið Selfoss, 33:28, í upphafsleik 7. umferðar í Sethöllinni í kvöld. Sigur FH-inga var sannfærandi. Þeir voru sterkari í 45 mínútur í leiknum og höfðu þriggja marka forskot í hálfleik, 14:11.


Með sigrinum færðist FH upp í sjötta sæti deildarinnar með sjö stig en Selfoss er áfram í áttunda sæti með sín fimm stig. Leiknum var flýtt vegna tveggja Evrópuleikja FH sem fram fara í Tyrklandi um næstu helgi en FH-ingar fara út á fimmtudagsmorgun.

Selfyssingar byrjuðu betur og voru með frumkvæðið framan af en fljótlega komu FH-ingar sér inn í leikinn. Jón Þórarinn Þorsteinsson markvörður kunni vel við sig á gamla heimavellinum. Honum varð hinsvegar á í messunni á upphafsmínútum síðari hálfleiks, óð út úr markinu en misreiknaði sig og hindraði Hannes Höskuldsson með þeim afleiðingum að Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson voru tilneyddir að sýna pilti rauða spjaldið.

Fjarvera Jóns Þórarins það sem eftir var leiksins kom hinsvegar ekki í veg fyrir að FH-inga styrktu stöðu sína í síðari hálfleik. Forskot liðsins jókst enda varnarleikur Selfoss-liðsins slakur og markvarslan heldur ekki til að hrópa húrra fyrir.


Mörk Selfoss: Hannes Höskuldsson 11/6, Hákon Garri Gestsson 6, Elvar Elí Hallgrímsson 3, Guðjón Óli Ósvaldsson 3, Valdimar Örn Ingvarsson 2, Gunnar Kári Bragason 1, Haukur Páll Hallgrímsson 1, Tryggvi Sigurberg Traustason 1.
Varin skot: Alexander Hrafnkelsson 7, 17,9%.

Mörk FH: Símon Michael Guðjónsson 8/2, Garðar Ingi Sindrason 7, Bjarki Jóhannsson 6, Leonharð Þorgeir Harðarson 4, Jón Bjarni Ólafsson 3, Þórir Ingi Þorsteinsson 2, Brynjar Narfi Arndal 2, Birkir Benediktsson 1.
Varin skot: Jón Þórarinn Þorsteinsson 7, 38,9% – Daníel Freyr Andrésson 4, 21,1%.

Tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -