Íslands- og deildarmeistarar FH tryggðu sér fyrstir liða sæti í undanúrslitum Olísdeildar karla í handknattleik með sigri á HK, 25:21, í annarri viðureign liðanna í Kórnum í kvöld. Þótt HK veitti töluverða mótspyrnu þá var FH með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda. HK er þar með komið í sumarleyfi en FH-ingar mæta sigurvegarnum úr rimmu Fram og Hauka.
Fyrri hálfleikur í viðureign HK og FH var jafn fyrstu 15 mínúturnar. HK-menn gættu þess að halda hraða leiksins niðri eins og hægt var. Varnir beggja lið voru afar góðar. Upp úr miðjum fyrri hálfleik, í stöðunni, 5:5, fór að bera á fleiri einföldum mistökum í sóknarleik HK. Sendingar rötuðu ekki samherja á milli auk þess sem liðinu tókst ekki að nýta sér yfirtölu. FH-ingar gengu á lagið og náðu forskoti, mest fimm mörk, 13:8, sem HK náði að minnka í fjögur mörk áður en fyrri hálfleikur var úti.

HK lögðu ekki árar í bát í upphafi síðari hálfleiks. Þeim tókst að minnka muninn niður í tvö mörk fyrir um miðjan hálfleikinn, 18:16. Áfram var talsvert um mistök í sóknarleiknum af beggja hálfu. Segja má að baráttan hafi verið talsvert á kostnað gæðanna hjá báðum liðum. Einnig var nokkuð um pústra og máttu Ramunas Mikalonis og Þorlefur Árni Björnsson hafa sig alla við að hafa augun hjá sér.

Ásbjörn Friðriksson kom FH fjórum mörkum yfir með þrumuskoti, 21:17, niu mínútum fyrir leiklok. Hann skoraði um leið þriðja mark FH í röð. Róðurinn þyngdist í kjölfarið og FH náði fimm marka forskoti skömmu síðar. FH var á leiðinni í undanúrslit en HK í sumarleyfi.
Mörk HK: Andri Þór Helgason 6, Hjörtur Ingi Halldórsson 4, Sigurður Jefferson Guarino 4, Haukur Ingi Hauksson 3, Leó Snær Pétursson 2/1, Aron Dagur Pálsson 1, Kári Tómas Hauksson 1.
Varin skot: Róbert Örn Karlsson 9, 37,5% – Patrekur Guðni Þorbergsson 1, 9,1%.
Mörk FH: Jóhannes Berg Andrason 7, Ásbjörn Friðriksson 7/1, Garðar Ingi Sindrason 5, Símon Michael Guðjónsson 2, Leonharð Þorgeir Harðarson 1, Birgir Már Birgisson 1, Gunnar Kári Bragason 1, Jakob Martin Ásgeirsson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 11/1, 34,4%.
Tölfræði HBStatz.