Handknattleiksmenn FH koma endurnærðir og þar af leiðandi væntanlega fílefldir til leiks þegar keppni hefst að nýju í Olísdeild karla um mánaðamótin. FH-ingar eru þessa dagana á Puerto de la Cruz á norðurhluta Tenerife við æfingar. Þeir eru væntanlegir heim aðfaranótt næsta föstudags að lokinni vikudvöl við æfingar við bestu aðstæður.
Í för eru 20 leikmenn auk þjálfara, liðstjóra og nuddara. Æft hefur verið af krafti auk þess sem dagskráin var brotin upp í gærkvöld með æfingaleik við heimaliðið, BM Sermarther Tacoronte. Leikurinn var nýttur til fjáröflunar á Puerto de la Cruz og tókst vel. Góð mæting var á leikinn sem FH vann með yfirburðum, 45:16.
Fyrrverandi samherji
Ferðin var skipulögð af Sigurði Gunnarssyni fyrrverandi landsliðsmanni í handknattleik sem vinnur hjá Verdi Travel. Helsti forsvarsmaður félagsins sem tók á móti FH á Puerto de la Cruz er Leonardo Juri Domingues, kallaður Leo. Hann lék með Sigurði og Einar Þorvarðarsyni um árabil hjá Coronas Tres De Mayo um miðjan níunda áratug síðustu aldar.
Toppslagur annan föstudag
FH situr í öðru sæti Olísdeildar karla með 19 stig eftir 13 leiki, fjórum stigum á eftir Val sem trónir á toppnum. FH-ingar sækja Valsmenn heim í fyrsta leik sínum árinu í Olísdeildinni föstudaginn 3. febrúar.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildunum.