FH leikur við tékkneska liðið Robe Zubří í þriðju umferð Evrópubikarkeppninnar í handknattleik karla. Dregið var fyrir stundu í Vínarborg. Komi til þess að leikirnir fari fram heima og að heiman þá verður fyrri viðureignin á heimavelli FH.
Til stendur að fyrri umferðin fari fram helgina 12. og 13. desember og sú síðari 19. og 20. desember.
- HC Robe Zubří átti að leika gegn St Gallen frá Sviss í annarri umferð keppninnar. St Gallen gaf leikina sem áttu að fara fram um síðustu og þar síðustu helgi.
- HC Robe Zubří er í sjötta sæti tékknesku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir með 8 stig eftir sjö umferðir. Keppni lá niðri í deildinni frá 3. október til 14. nóvember meðan reynt var að koma böndum yfir kórónuveiruna. Eftir að þráðurinn var tekinn upp á ný í deildinni hafa liðsmenn HC Robe Zubří unnið báða leikina sem fram hafa farið.
- HC Robe Zubří er frá 5.500 manna bæ, Zubří, í austurhluta Tékklands, Zlín-héraði.
- HC Robe Zubří hefur þrisvar orðið tékkneskur meistari, 1996, 1997 og 2012. Sex sinnum hreppt silfur, síðast 2010 og í fimm skipti hlotið bronsverðlaun, síðast 2018.
- Keppnishöll félagsins rúmar 1.200 áhorfendur og var tekin í gagnið fyrir um aldarfjórðungi.
- Þess má geta til fróðleiks að Víkingur lék við Robe Zubří í 1. umferð Evrópukeppni félagsliða keppnistímabilið 1994/1995. Þá hét liðið HC Gumárny Zubří. Tékkneska liðið vann báða leikina sem fram fóru ytra, 23:16 og 27:22.
Eftirfarandi lið voru dregin saman í 3. umferð Evrópubikarkeppninnar í morgun:
Ystads IF – HC Tallinn
HC Neva SPb – ZRHK Tenax Dobele
RK Gorenje Velenje – Cocks
HC Berchem – HB West Wien
Ferlach – Drammen
Óskar Ólafsson og Viktor Petersen Norberg leika með Drammen.
Pölva Serveti – Dukla Prag
FH – HC Robe Zubří
Granitas – MSK Povazska Bystrica
HC Masheka – SGAU-Saratov
Spor Toto SC – CSM Bucuresti
Donbas – Antalyaspor
AEK Aþena – HC Prishtina
RK Gracanica – Holon Yuvalim HC
KH Besa Famgas – Borac mtel
Parnassos Strovolou – CS Minaur Baia Mare
Beykoz BLD SK – Sabbianco A. Famagusta
Fréttin hefur verið uppfærð.