FH-ingar eru komnir til Bursa í Tyrklandi og þegar búnir að æfa í keppnissalnum þar sem þeir mæta Nilüfer BSK á morgun laugardag og aftur á sunnudaginn í 3. umferð Evrópubikarkeppni karla í handknattleik. Báðar viðureignir hefjast klukkan 14. Ekkert hefur spurst út um streymi frá leikjunum.
FH-liðið fór með beinu flugi frá Keflavíkurflugvelli í gær til Istanbúl. Frá Istanbúl til Bursa er um tveggja stunda akstur.
Nilüfer BSK situr í þriðja sæti tyrknesku úrvalsdeildarinnar með 14 stig þegar átta leikir eru að baki. Liðið er tveimur stigum á eftir efsta liðinu og meisturum síðustu ára, Besiktas sem trónir á toppnum. Nilüfer BSK og Besiktas mættust í úrslitum um meistaratitilinn í vor.

Fyrsta konan í efstu deild karla
Athygli vekur að aðalþjálfari Nilüfer BSK er kona. Kurtulus Ilknur heitir hún. Ekki er algengt að konur þjálfi karlalið í efstu deild karla, eins og dæmi sanna best á Íslandi.
Ilknur er fyrsta konan sem þjálfar karlalið í efstu deild í Tyrklandi. Hún er 54 ára gömul og er þrautreynd í þjálfun. Hún tók við sem aðalþjálfari Nilüfer BSK sumarið 2023. Þá var leikmannahópur liðsins, ungur, 22,5 ár. Ilknur náði afar góðum árangri með liðið á síðustu leiktíð en eins áður segir lék Nilüfer BSK til úrslita um meistaratitilinn í vor. Áður en Ilknur tók við Nilüfer BSK hafði hún m.a. þjálfað félagslið kvenna og 20 ára landslið Tyrklands í karlaflokki.
Að uppstöðu til er leikmannahópur Nilüfer BSK skipaður Tyrkjum. Tveir Bosníumenn eru í hópnum, einn Búlgari og einn Írani.