Med Khalil Chaouachi línumaður frá Túnis hefur skrifað undir þriggja ára samning við handknattleiksdeild FH. Í tilkynningu frá handknattleiksdeild segir að Chaouachi sé stór og kraftmikill línumaður.
Chaouachi hefur undanfarin ár leikið í Túnis, Ungverjalandi og nú síðast með KH Bea Famgas í Kósovó. Skoraði hann m.a. fjögur mörk í tveimur leikjum liðsins í fyrstu umferð Evrópubikarkeppninnar í haust sem leið.
Kemur með markverðinum
Chaouachi flytur til Íslands í sumar ásamt sambýliskonu sinni, Ungverjanum Szonja Szöke, sem ætlar að verja mark kvennaliðs FH á næstu leiktíð eins og tilkynnt var um fyrir stuttu.
„Við erum virkilega spennt að taka á móti Chaouachi og Szonja Söke inn í FH-fjölskylduna. Chaouachi er spennandi leikmaður sem verður gaman að fylgjast með í FH-treyjunni. Við munum gera allt í okkar valdi til að hjálpa Szöke og Chaouachi til að aðlagast nýju landi og nýjum handbolta,“ er haft eftir Ágústi Bjarna Garðarssyni, formanni handknattleiksdeild FH í tilkynningu.
FH hefur samið við ungverskan markvörð