- Auglýsing -
- Auglýsing -

FH slapp fyrir horn gegn baráttuglöðu liði HK

Jóhannes Berg Andrason leikmaður FH. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

FH-ingar sluppu svo sannarlega fyrir horn í viðureign sinni við HK í Kaplakrika í kvöld í sjöttu umferð Olísdeildar karla. Eftir að hafa stígið krappan dans frá upphafi til enda leiksins þá tókst FH að hirða bæði stigin, 24:22 voru lokatölur. HK var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 11:9.


FH-ingar eru þar með áfram í öðru sæti deildarinnar. Þeir hafa 10 stig að loknum sex leikjum. HK hefði svo sannarlega verðskuldað annað stigið úr viðureigninni en hvarf á braut tómhent og er þar með áfram með stigin sín þrjú í 10. sæti.

Eftir tvo afleita leiki í röð mættu baráttuglaðir HK-ingar til leiks í Kaplakrika í kvöld. Þeir gáfu leikmönnum FH ekki þumlung eftir. Framliggjandi vörn HK-inga var FH-ingum mesta ráðgáta frá upphafi til enda. Þess utan varði Sigurjón Guðmundsson allt hvað af tók í marki HK-inga, ekki síst í fyrri hálfleik þegar hann var með 50% markvörslu eftir að hafa verið með 60% hlutfall eftir 20 mínútur.

Leonharð Þorgeir Harðarson skoraði tvö mikilvæg mörk í röð eftir miðjan síðari hálfleik sem kom FH yfir. Mynd/J.L.Long

HK náði mest fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleik, 10:6. Snemma í síðari hálfleik tókst FH-ingum að jafna metin. Eftir það var leikurinn nánast í járnum til loka. Jóhannes Berg Andrason tók af skarið í sóknarleiknum á síðustu mínútum og skoraði mörkin sem skildu liðin að þegar upp var staðið. Auk Jóhannesar geta FH-ingar þakkað markverði sínum, Daníel Frey Andréssyni sigurinn. Hann var mjög góður allan leikinn en hreint frábær á síðustu 10 mínútunum þegar HK-ingar freistuðu þess að jafna metin og krækja í að minnsta kosti annað stigið.

Aron með í Evrópuleiknum

Aron Pálmarsson lék ekki með FH vegna bakmeiðsla. Sigursteinn Arndal þjálfari FH sagði við handbolta.is eftir leikinn í kvöld að góðar vonir standi til þess að Aron geti tekið þátt í leik FH og Partizan í Evrópubikarkeppninni sem fram fer í Kaplakrika á laugardagskvöld.

Ásbjörn Friðriksson meiddist undir lok fyrri hálfleiks og kom ekkert við sögu í þeim síðari. Óvíst er hvort meiðsli hamli þátttöku hans í Evrópuleiknum.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

Mörk FH: Jóhannes Berg Andrason 8, Einar Bragi Aðalsteinsson 6, Einar Örn Sindrason 5/1, Leonharð Þorgeir Harðarson 2, Símon Michael Guðjónsson 1, Jakob Martin Ásgeirsson 1, Jón Bjarni Ólafsson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 17/1, 44,7%.
Mörk HK: Sigurður Jefferson Guarino 5, Hjörtur Ingi Halldórsson 3, Kristján Ottó Hjálmsson 3, Kári Tómas Hauksson 3, Kristófer Ísak Bárðarson 3, Pálmi Fannar Sigurðsson 2, Aron Gauti Óskarsson 1, Kristján Pétur Barðason 1, Sigurjón Guðmundsson 1.
Varin skot: Sigurjón Guðmundsson 15, 38,5%.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -