- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fimm efnilegar stúlkur skrifa undir samninga við Val

F.v: Kristbjörg Erlingsdóttir, Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir, Arna Karitas Eiríksdóttir, Jón Halldórsson stjórnandi hjá Val, Guðrún Hekla Traustadóttir, Ásrún Inga Arnarsdóttir. Mynd/Valur
- Auglýsing -

Handknattleiksdeild Vals hefur gengið frá samningum við fimm leikmenn sem koma úr yngri flokka starfi félagsins. Allar hafa þær skrifað undir tveggja ára samninga, eftir því sem greint er frá í tilkynningu.


Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir, Kristbjörg Erlingsdóttir og Ásrún Inga Arnarsdóttir eru fæddar árið 2006 og voru lykilmenn í 3. flokki félagsins sem lék til úrslita í bikarkeppni og Íslandsmótinu síðasta vetur þrátt fyrir að vera á yngsta ári í flokknum. Kristbjörg og Ásrún Inga eru skyttur og Ásthildur er hornamaður.

Guðrún Hekla Traustadóttir og Arna Karitas Eiríksdóttir eru fæddar árið 2007 og urðu bikarmeistarar síðasta vetur með 4. flokki ásamt því að taka stærra hlutverk með 3. flokki og U-liði félagsins. Báðar eru þær sterkir leikstjórnendur sem einnig geta leyst aðrar stöður.

Á leiðinni á EM

Allar þessar stelpur stigu sín fyrstu skref í meistaraflokki í fyrra og hafa verið í 17 ára landsliði Íslands. Arna, Ásthildur, Ásrún og Guðrún eru á leið á Evrópumót 17 ára landsliða sem hefst í Podgorica í Svartfjallalandi 3. ágúst. Kristbjörg er að jafna sig af meiðslum.

Geta náð langt

„Frábært að þessar ungu og efnilegu leikmenn séu að skrifa undir samning við félagið. Með góðri æfingu geta þessar stelpur allar náð mjög langt. Þessar stelpur eru unglingalandsliðsmenn sem eru tilbúnar að leggja mikið á sig til að komast í fremstu röð og berjast fyrir sæti sínu í sterkum Valshóp á komandi árum,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Íslandsmeistara Vals í tilkynningu handknattleiksdeildar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -