- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fimm Íslendingar berjast um sigurinn í bikarnum í Þýskalandi

Gísli Þorgeir Kristjánsson. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Fimm íslenskir landsliðsmenn verða í eldlínunni á morgun þegar SC Magdeburg og Melsungen mætast í úrslitum þýsku bikarkeppninnar í handknattleik í karla í Lanxess Arena í Köln. Tríóið hjá Magdeburg, Gísli Þorgeir Kristjánsson, Janus Daði Smárason verða þar auk Arnars Freys Arnarssonar og Elvars Arnar Jónsson í liði andstæðinganna, MT Melsungen.

Magdeburg vann Füchse Berlin með fimm marka mun í undanúrslitaleik í dag, 30:25. Í framhaldinu lagði Melsungen liðsmenn Flensburg-Handewitt á sannfærandi hátt, 33:28, í hinni viðureign undanúrslitanna.

Elvar Örn skoraði fimm mörk og átti fimm stoðsendingar í leiknum auk þess að láta til sína taka í vörninni með þeim afleiðingum m.a. að honum var vikið af velli í eitt skipti.

Arnar Freyr lét einnig til sína taka. Hann skoraði tvisvar sinnum.

Teitur Örn Einarsson skoraði þrjú mörk, átti eina stoðsendingu og var einu sinni vikið af leikvelli í liði Flensburg sem tapaði úrslitaleik bikarkeppninnar á síðasta ári fyrir Rhein-Neckar Löwen.

Gísli Þorgeir Kristjánsson lék við hvern sinn fingur í undanúrslitaleiknum við Füchse Berlin eftir hádegið í dag. Hann var markahæstur með átta mörk. Einnig átti hann tvær stoðsendingar.

Ómar Ingi Magnússon skoraði sjö mörk, fimm úr vítaköstum og var með fullkomna nýtingu. Hann átti einnig tvær stoðsendingar sem báru ávöxt.

Janus Daði Smárason átti eina stoðsendingu og varð einu sinni að sætta sig við að vera vikið af leikvelli.

Úrslitaleikur SC Magdeburg og MT Melsungen hefst klukkan 13.35 á morgun, sunnudag. Útesending verður frá leiknum á Vodafone sport.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -