Tékkar höfðu betur gegn íslenska landsliðinu í þriðja og síðasta leik liðanna á æfingamóti í handknattleik kvenna í Cheb í Tékklandi í dag, 26:21. Heimaliðið var sex mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 14:8. Ljóst er á tölunum að íslenska liðinu hefur tekist betur upp í síðari hálfleik en þeim fyrri.
Viðureignin var reyndar jöfn framan af í Cheb en þegar nálgast fór miðjan hálfleikinn stungu Tékkar af og voru með sex marka forskot í hálfleik, 14:8.
Elín Klara Þorkelsdóttir var í mótslok valin besti leikmaður íslenska liðsins.
Sunna Jónsdóttir fyrirliði tók við verðlaunagrip fyrir 3. sætið á mótinu en Tékkar leggja mikið upp úr verðlaunum og viðurkenningum.
Lilja Ágústsdóttir gat ekki leikið með íslenska liðinu í dag vegna ökklameiðsla sem hún varð fyrir í viðureign við tékkneskt félagslið í gær.
Því miður var ekki mögulegt að sjá leikinn hér á landi eins og vonir stóðu til. Útsending tékkneska sjónvarpsins frá viðureigninni var lokuð fyrir áhorfendur utan Tékklands.
Mörk Íslands: Perla Ruth Albertsdóttir 7/5, Elín Klara Þorkelsdóttir 4, Andrea Jacobsen 3, Steinunn Björnsdóttir 2, Elísa Elíasdóttir 1, Elín Rósa Magnúsdóttir 1, Katrín Anna Ásmunsdóttir 1, Sunna Jónsdóttir 1, Þórey Rósa Stefánsdóttir 1.
Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 11.
Pólverjar unnu alla leiki sína á mótinu. Tékkar höfnuðu í öðru sæti. Ísland hafnaði í þriðja sæti og Házená Kynžvart rak lestina en um tékkneskt félagslið er að ræða.