Nýkrýndir heimsmeistarar félagsliða í handknattleik og ríkjandi Evrópumeistarar SC Magdeburg unnu danska meistaraliði GOG, 35:27, á heimavelli í kvöld í sjöundu umferð B-riðils Meistaradeildar Evrópu. Þetta var fimmti leikur Magdeburg á níu dögum og um leið fimmti sigurinn. Með þessum nýjasta í kvöld treysti Magdeburg stöðu sína í þriðja sæti riðilsins en stöðuna er að finna neðst í þessari grein.
Janus Daði Smárason lék afar vel í leiknum í kvöld. Hann skoraði sex mörk og átti eina stoðsendingu. Ómar Ingi Magnússon skoraði fjögur mörk og gaf fimm stoðsendingar svo ljóst er að Íslendingarnir voru allt í öllu hjá Magdeburg. Daninn Michael Damgaard skoraði sjö mörk fyrir Magdeburg.
Emil Wersdorf skoraði átta sinnum fyrir GOG.
Í hinni viðureign B-riðils lagði Barcelona liðsmenn Wisla Plock, 28:25, í Plock í Póllandi. Barcelona, sem líkt og Magdeburg, lék sinn fimmta leik á níu dögum í kvöld, er efst í B-riðli með 12 stig eins og Veszprém sem vann Celje í gær, 40:33.
Jafntefli hjá Hauki í Zagreb
Haukur Þrastarson skoraði ekki marki þegar Kielce gerði jafntefli, 22:22, við RK Zagreb í Króatíu í kvöld en liðin eru í A-riðli Meistaradeildar. Kielce er í sömu sporum og Magdeburg og Barcelona að hafa verið í miklu leikjaálagi síðustu daga vegna þátttöku í heimsmeistaramóti félagsliða sem fram fór í Dammam í Sádi Arabíu.
Lék gamla samherja grátt
Áfram heldur skrykkjótt gengi þýska meistaraliðsins THW Kiel. Í kvöld tapaði liðið á heimavelli fyrir Aalborg Håndbold, 27:18. Danski landsliðsmarkvörðurinn Niklas Landin fór á kostum og varði 19 skot gegn sínum gömlu samherjum í Kiel, 51,3%, þar var hlutfallið 65% þegar fyrri hálfleikur var að baki.
Frammistaða Samir Bellahcene í marki Kiel, 41% féll alveg í skuggan af stórleik Landin.
Í þriðja leik kvöldsins í A-riðli vann Pick Szeged sigur á Euorfarm Pelister frá Norður Makedóníu, 34:26, í Szeged í Ungverjalandi.
Staðan: