Í gær voru rétt 50 ár síðan íslenska karlalandsliðið í handknattleik tók fyrsta þátt í handknattleikskeppni Ólympíuleika. Leikarnir sem þá voru haldnir í München í Vestur-Þýskalandi voru einnig þeir fyrstu þar sem keppt var í handknattleik karla innanhúss.
Alþjóða Ólympíunefndin, IOC, samþykkti á fundi sínum í október 1965 að handknattleikur karla yrði settur á dagskrá leikanna sjö árum síðar. Handknattleikur í kvennaflokki fylgdi í kjölfarið á leikunum í Montréal fjórum árum síðar. Kvennalandslið Íslands hefur enn sem komið er ekki unnið sér inn þátttökurétt á Ólympíuleikum.
Ísland var ein 16 þjóða sem vann sér inn keppnisrétt á leikunum 1972. Hafnaði liðið í 12. sæti af 16 liðum. Eftir það hefur íslenska landsliðið tekið þátt í sex skipti.
Mörgum er ugglaust í fersku minni silfurverðlaunin sem íslenska landsliðið vann á leikunum 2008 í Peking eftir tap fyrir Frökkum, 28:23, í úrslitaleik. Hinn 24. ágúst sl. voru liðin 14 ár frá úrslitaleiknum.
Á leikunum í Barcelona 1992 lék Ísland til úrslita um bronsverðlaun en tapað fyrir Frökkum, 24:20.
Árið 1984 kom sjötta sætið í hlut Íslands og áttunda sætið fjórum árum síðar. Á Aþenuleikunum 2004 varð Ísland í 9. sæti og í 5. sæti árið 2012 í Lundúnum eftir grátlegt tap fyrir Ungverjum í átta liða úrslitum.
Í tilefni 50 ára frá þátttökunni og fyrsta leiknum, sem vel að merkja var við Austur-Þýskaland og tapaðist 16:11, skrifaði Sigmundur Ó. Steinarsson blaðamaður þrjár greinar að ósk handbolta.is um aðdraganda, undirbúning og síðan þátttöku íslenska karlalandsliðsins á Ólympíuleikunum í München 1972. Greinarnar hafa birst á handbolta.is síðustu daga og vakið mikla athygli. Í þeim er mikill sögulegur fróðleikur auk fjölda mynda frá þessum árum.
Hér fyrir neðan er hlekkur á greinarnar þrjár sem eru kærkomnar fyrir þá sem vilja kynnast handknattleikssögunni betur og halda henni til haga.
GREIN 1: ÓL Í 50 ÁR: Benedikt flutti gleðifréttir frá Madrid
GREIN 2: ÓL Í 50 ÁR: Hjalti gaf sjóvettlinga og Geir með handleggi á „kúluliðum“!
GREIN 3: ÓL Í 50 ÁR: „Létum Tékka hafa okkur út í tóma vitleysu!“