- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fingurbrotnaði í fagnaðarlátum – áfall í herbúðum KA

Nicholas Satchwell, markvörður KA og færeyska landsliðsins. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson.
- Auglýsing -

Færeyski landsliðsmarkvörðurinn Nicholas Satchwell leikur ekki fleiri leiki með KA á þessu keppnistímabili. Hann fingurbrotnaði illa eftir sigur KA á Haukum á Ásvöllum á föstudagskvöld, eftir því sem heimildir handbolta.is herma. Hlaut hann opið fingurbrot og er þar af leiðandi í gipsi upp að olnboga. Eftir því sem næst verður komist brotnaði þumalfingur hægri handar.


Óhappið átti sér stað eftir leikinn þegar leikmenn KA voru að kætast yfir sætum sigri, 30:29, sem Óðinn Þór Ríkharðsson innsiglaði úr vítakasti þegar leiktíminn var úti. Satchwell mun hafa stokkið á einn samherja sinn í gleðinni með fyrrgreindum afleiðlingum og afar slysalegum.


KA mætir Haukum öðru sinni í átta liða úrslitum í KA-heimilinu annað kvöld. Bruno Bernat mun þá standa vaktina í KA-markinu eins og hann hefur svo oft gert áður í vetur með góðum árangri.


Óskar Þórarinsson, 16 ára markvörður úr 3. flokki og 4. flokki, verður á vaktinni með Bruno. Óskar skrifaði um helgina undir leikannasamning við KA svo hann verði gjaldgengur með meistaraflokki.


Viðureign KA og Hauka í átta liða úrslitum Olísdeildar karla hefst klukkan 18.30 á morgun í KA-heimilinu. Takist KA að vinna tekur liðið sæti í undanúrslitum en ef Haukum tekst að sigra í leiknum kemur til oddaleiks á Ásvöllum á miðvikudaginn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -