- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fjögur lið berjast í Mexíkó um einn HM-farseðil

Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Aðeins fjögur landslið taka þátt í undankeppni Norður-Ameríku og Karabíahafseyja fyrir heimsmeistaramótið í handknattleik karla sem hefst í Mexíkóborg á sunnudaginn. Í boð er eitt sæti á heimsmeistaramótið sem fram fer í Póllandi og Svíþjóð í janúar á næsta ári.


Auk landsliðs Mexíkó eru landslið Bandaríkjanna, Grænlands og Kúbu skráð til leiks. Fyrirfram er reiknað með að baráttan um farseðilinn á HM standi á milli Bandaríkjanna og Grænlands. Lið þjóðanna leiða saman hesta sína í fyrstu umferð.


Bandaríkin stefndu á þátttöku á HM 2021 í Egyptalandi eftir að hafa þegið boð Alþjóða handknattleikssambandsins um þátttöku. Ekkert varð úr þátttöku eftir að stór hluti bandaríska landsliðsins og aðstoðarfólk, þar á meðal læknir liðsins, veiktust af kórónuveiru í æfingabúðum í Danmörku nokkrum dögum áður en flautað var til leiks á HM í Egyptalandi. Þar með heltust Bandaríkjamenn úr lestinni og varaþjóð var kölluð inn á elleftu stundu. Var þar um að ræða landslið Sviss sem mætti m.a. íslenska landsliðinu í milliriðlakeppninni.


Undankeppni Norður-Ameríku og Karabíahafseyja fyrir HM 2021 féll niður sumarið 2020. Þar af leiðandi var Bandaríkjunum boðin þátttaka við litla ánægju Grænlendinga sem þótti framhjá sér gengið.


Sigurliðið í undankeppni Norður-Ameríku og Karabíahafseyja verður í fjórða og neðsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir HM í Katowice í Póllandi 2. júlí.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -