Landslið Íslands og Slóveníu hafa mæst fimm sinnum í lokakeppni Evrópumóts karla í handknattleik frá því að Ísland var með í fyrsta sinn fyrir 26 árum. Slóvenar hafa unnið fjórar viðureignir en Ísland eina. Síðast mættust lið þjóðanna í lokakeppni EM fyrir sex árum og eins í dag í Malmö Arena. Slóvenar unnu sannfærandi sigur, 30:27.
Átta með fyrir sex árum
Átta af leikmönnum landsliðsins í dag voru í landsliðshópnum á EM 2020, þar af tóku sjö þeirra þátt í leiknum við Slóveníu í Malmö Arena. Haukur Þrastarson sat yfir en Björgvin Páll Gústavsson, Viktor Gísli Hallgrímsson, Bjarki Már Elísson, Ýmir Örn Gíslason, Arnar Freyr Arnarsson, Janus Daði Smárason og Viggó Kristjánsson tóku þátt í leiknum. Einnig var Elvar Örn Jónsson þátttakandi í leiknum 2020. Hann verður því miður ekki með í dag vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik við Ungverja fyrr á EM.

Sigur í Zagreb í fyrir ári
Aðeins er rúmt ár síðan Ísland og Slóvenía áttust við á heimsmeistaramótinu í Zagreb. Hinn 20. janúar 2025 vann íslenska landsliðið það slóvenska, 23:18. Viggó Kristjánsson var markahæstur með sjö mörk. Aron Pálmarsson var næstur með fimm mörk. Viktor Gísli Hallgrímsson átti stórbrotinn leik markinu að baki sterkri vörn.
Úrslit í viðureignum Íslands og Slóveníu á EM:
2020: Ísland – Slóvenía 27:30.
2012: Ísland – Slóvenía 32:34.
2004: Ísland – Slóvenía 28:34.
2002: Ísland – Slóvenía 31:25.
2000: Ísland – Slóvenía 26:27.
Leikur Íslands og Slóveníu hefst klukkan 14.30 í dag. Eingöngu með sigri tekst Íslandi að tryggja sér sæti í undanúrslitum EM.



