Íslands- og bikarmeistarar KA/Þórs töpuðu fyrri leiknum fyrir spænsku bikarmeisturum BM Elche, 22:18, í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik kvenna í Elche á Spáni í dag. Liðin mætast öðru sinni á sama stað klukkan 11 á morgun.
BM Elche var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda og var m.a. með þriggja marka forskot í hálfleik, 13:10. Heimaliðið lék framliggjandi vörn sem KA/Þór átti á tíðum í erfiðleikum með. Engu að síður fengu Íslandsmeistararnir mörg góð markifæri sem fóru forgörðum.
Rétt fyrir miðjan síðari hálfleik minnkaði KA/Þór muninn í eitt mark, 16:15. Upp úr því kom afar erfiður kafli. Mörthu Hermannsdóttur var vísað af leikvelli í tvígang á stuttum tíma. Spænska liði gekk á lagið og náði fimm marka forskoti, 21:16, eftir nærri 14 mínútna markalausan leikkafla KA/Þórs.
Litlu mátti muna að KA/Þór næði að halda þriggja marka mun en því miður þá tókst leikmönnum Elche að skora 22. mark sitt á síðustu sekúndum í framhaldi af góðu marki Rakelar Söru Elvarsdóttur eftir hraðaupphlaup og frábæra sendingu frá Mateu Lonac.
Matea Lonac átti stórleik í marki KA/Þórs og var besti maður liðsins. Hún varði 17 skot, þar af tvö vítaköst.
Mörk KA/Þórs: Martha Hermannsdóttir 4/1, Unnur Ómarsdóttir 4, Rakel Sara Elvarsdóttir 4, Aldís Ásta Heimisdóttir 2, Ásdís Guðmudsdóttir 2, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 2/1.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér að neðan.