FH mætir gríska liðinu Diomidis Argous í fyrstu umferð Evrópubikarkeppni karla í handknattleik og Valur leikur við Granitas-Karys í sömu keppni og umferð. Dregið var í fyrstu og aðra umferð keppninnar í morgun. Einnig voru Íslandsmeistarar ÍBV og bikarmeistarar Aftureldingar með þegar dregið var. Liðin mæta til leiks í aðra umferð.
Fyrsta umferð á að fara fram 9. og 10. september og 16. og 17. september. FH á heimaleik síðari helgina verði leikið heima og að heiman. Valur var dreginn út á undan og á þar með heimaleik fyrri helgina.
Komist FH og Valur áfram í aðra umferð verður Partizan frá Belgrad andstæðingur FH-inga en Valur leikur við eistneska liðið Pölva Serviti í annarri umferð lánist liðinu að ryðja Granitas-Karys úr vegi.
ÍBV til Lúxemborgar
Andstæðingur Íslandsmeistara ÍBV í annarri umferð Evrópubikarkeppni karla verður HB Red Boys Differdange frá Lúxemborg. Eyjamenn voru dregnir út á undan og eiga þar með heimaleik í fyrri umferðinni sem fram fer 14. og 15. október. Síðari leikirnir verða viku síðar.
Norskt lið með sögu í keppninni
Bikarmeistarar Aftureldingar glíma við norska liðið Nærbø í annarri umferð Evrópubikarkeppni karla. Mosfellingar eiga heimaleikinn síðari helgina, ef leikið verður heima og að heiman.
Nærbø hefur leikið til úrslita í Evrópubikarkeppninni tvö síðustu ár. Liðið vann keppnina vorið 2022 en tapaði í úrslitum fyrir Vojvodina frá Serbíu í vor.
Þess má til fróðleiks geta að síðast þegar Afturelding tók þátt í Evrópukeppni var andstæðingurinn einnig norskur, Bækkelaget.
Handbolti.is fylgdist með í textalýsingu þegar dregið var í morgun.