Dönsk yfirvöld hafa heimilað að keppni í B-deild karla og kvenna, eða 1. deild, megi hefjast á nýjan leik 20. nóvember. Frá og með deginum í dag mega allt að 50 koma saman til æfinga á nýjan leik.
Um síðustu mánaðarmót var óheimilt að leika í 1. deild karla og kvenna og þar með lagðist keppni m.a. af hjá EH Aalborg sem Sandra Erlingsdóttir, landsliðskona leikur með. Einnig voru æfingar takmarkaðar og aðeins máttu 10 vera saman á æfingu sem kom í veg fyrir að fullskipað handboltalið gæti verið saman í æfingasal með þjálfara.
Allt var þetta gert til þess að draga úr smitum kórónuveiru sem hefur leikið Dani grátt eins og aðra á síðustu vikum.
Liðin fá nú 11 daga til þess að æfa saman af krafti á nýjan leik eftir að hafa æft í minni hópum síðan um mánaðarmótin.
„Við höfum nýtt tímann vótrúlega vel eftir að hætt var að spila og fækkað var þátttakendum á hverri æfingu. Mikið hlaupið og lyft auk þess sem tíminn hefur líka farið í tækniæfingar. Til viðbótar hefur maður fengið meiri tíma með þjálfaranum en þegar við erum fleiri á æfingum,” sagði Sandra í skilaboðum til handbolta.is áðan. Hún hlakkar engu að síður til að geta byrjað að leika aftur í deildarkeppninni enda lið hennar á frábæru róli, er með fullt hús stiga eftir sjö umferðir.
Félög sem eru í C-deild, eða 2. deild, mega hefja keppni aftur 22. nóvember.