- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fjölnir heldur lífi í einvíginu við Víking

Gunnar Valdimar Johnsen reyndist leikmönnum Fjölnis erfiður í fyrsta leiknum. Mynd/Þorgils G - Fjölnir, handbolti
- Auglýsing -

Fjölni tókst að halda lífi í einvíginu við Víking í umspil Olísdeildar karla með eins marks sigri í Safamýri í dag, 25:24. Fjölnismenn skoruðu fjögur síðustu mörk leiksins. Þar með hefur Fjölnir einn vinning en Víkingur tvo. Fjórða viðureign liðanna verður í Dalhúsum á fimmtudagskvöld. Flautað verður til leiks klukkan 19.30.

Víkingum tókst ekki að skora mark síðustu fimm mínúturnar.

Þeir voru nærri því í síðustu sókn en brotið var á Jóhanni Reyni Gunnlaugssyni á síðustu sekúndu. Var að sjá að hann væri sleginn í andlitið. Alltént var brotið það hart að dómararnir sáu ástæðu til þess að vísa Fjölnismanni af leikvelli. Víkingar vildu frá vítakast og tvær mínútur en Fjölnismenn mótmæltu. Eftir mikla rekistefnu hjá dómurum leiksins og leikmönnum varð niðurstaðan aukakast. Það skilaði Víkingi ekki marki.

Margt bendir til þess að Víkingar hafi haft nokkuð til síns máls í kröfum um vítakast.

Burt séð frá þessu atviki er ljóst að Víkingar fóru illa að ráði sínu á síðustu fimm mínútum leiksins. Svo má nú ekki heldur gleyma því að markvörður Víkings, Hlynur Freyr Ómarsson, varði úr opnu færi frá Aroni Breka Oddnýjarsyni þegar 20 sekúndur voru til leiksloka. Hefði sú varsla ekki komið til hefði leikurinn verið alveg tapaður Víkingum fyrir síðustu sóknina.

Staðan var jöfn í hálfleik, 13:13. Eins og í leik tvö var viðureignin nokkuð kaflaskipt. Ekki síst í síðari hálfleik þegar Víkingur náði tvisvar sinnum þriggja marka forskoti en lét það renna jafn harðan úr höndum sínum.

Aftur var fullt hús í Safamýri og rífandi góð stemning. Þess vegna mega leikirnir verða fleiri í þessari rimmu. Þeir laða að áhorfendur þótt baráttan sé nú á stundum nokkuð hressileg.

Mörk Víkings: Gunnar Valdimar Johnsen 7, Jóhann Reynir Gunnlaugsson 6, Styrmir Sigurðarson 2, Igor Mrsulja 2, Brynjar Jökull Guðmundsson 2, Guðjón Ágústsson 2, Agnar Ingi Rúnarsson 1, Halldór Ingi Jónasson 1, Halldór Ingi Óskarsson 1.
Varin skot: Hlynur Freyr Ómarsson 8, Sverrir Andrésson 6.

Mörk Fjölnis: Þorleifur Rafn Aðalsteinsson 7, Benedikt Marinó Herdísarson 5, Alex Máni Oddnýjarson 3, Björgvin Páll Rúnarsson 3, Goði Ingvar Sveinsson 3, Viktor Berg Grétarsson 1, Óðinn Freyr Heiðmarsson 1, Sigurður Örn Þorsteinsson 1, Aron Breki Oddnýjarson 1.
Varin skot: Andri Hansen 9, Bergur Bjartmarsson 2.

Handbolti.is var í íþróttahúsinu í Safamýri og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -