Arnar Gunnarsson og lærisveinar hans í Neista unnu sinn fjórða leik í færeysku úrvalsdeildinni í handknattleik í dag þegar þeir sóttu lið STíF heim í Skála, 30:24. Neistin var með sjö marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 16:9. Frá upphafi til enda lék aldrei vafi á hvort liðið færi með sigur úr býtum.
Neistin er í efsta sæti með 8 stig að loknum fjórum leikjum og er eina taplausa liðið í deildinni um þessar mundir. H71 var taplaust fyrir leiki dagsins en tapaði, 27:26, fyrir Team Klaksvik í Klakksvík í miklum spennuleik.
Finnur Hanson, aðstoðarþjálfari Neistans, lék ekki með liðinu að þessu sinni en var Arnari til halds og trausts á bekknum.
Hörður Fannar Sigþórsson og samherjar hans í VÍF frá Kollafirði fögnuðu einnig sigri í dag þegar þeir sóttu Kyndil heim í Höllinni á Hálsi í höfuðstaðnum, Þórshöfn, lokatölur 20:17. VÍF var með yfirburði í fyrri hálfleik og lagði þá grunn að sigrinum. Þegar leiktíminn var hálfnaður var KÍF sex mörkum yfir, 14:8.
Hörður Fannar skoraði eitt mark fyrir KÍF sem hefur fjögur stig eftir fjórar viðureignir.