Íslands- og bikarmeistarar Fram töpuðu með 14 marka mun fyrir FC Porto í næst síðustu umferð riðlakeppni 32-liða úrslita Evrópubikarkeppni karla í handknattleik í kvöld, 44:30. Leikið var í Pavilhao Dragao Arena í Porto.
Ólíkt fyrri leik liðanna í Lambhagahöllinni snemma í október þá áttu leikmenn Fram aldrei von í viðureigninni í kvöld. Leikmenn Porto voru 13 mörkum yfir, 23:10, þrátt fyrir að vera án Þorsteins Leó Gunnarssonar auk þess sem leikstjórnandi portúgalska landsliðsins, Rui Silva, hafði sig lítt í frammi enda rétt að jafna sig af náratognun síðan í fyrri viðureigninni við Fram.
Skarð var fyrir skildi hjá Fram-liðinu að Rúnar Kárason gat ekki tekið þátt í leiknum.
Fram hefur þar með tapað öllum fimm viðureignum sínum í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Lokaleikur liðsins verður við Elverum í Noregi eftir viku. Elverum lagði HC Kriens-Luzern, 38:34, í Sviss í kvöld og á þar með ennþá möguleika á sæti í 16-liða úrslitum Evrópudeildar.
Mörk Fram: Dánjal Ragnarsson 8, Arnar Snær Magnússon 4, Theodór Sigurðsson 4, Viktor Sigurðsson 4, Ívar Logi Styrmisson 3, Max Emil Stenlund 3, Eiður Rafn Valsson 2, Arnþór Sævarsson 1, Dagur Fannar Möller 1.
Varin skot: Arnór Máni Daðason 13, 27,7% – Garpur Druzin Gylfason 2, 66,7% – Breki Hrafn Árnason 0.


