Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, hefur orðið að gera þriðju breytinguna á landsliðshópnum sem mætir Litháen í undankeppni EM2022 í Laugardalshöll á miðvikudaginn.
Eyjamaðurinn Hákon Daði Styrmisson var í dag kallaður inn í hópinn í stað Odds Gretarsson, hjá Balingen, sem á ekki heimangengt í leikinn.
Hákon Daði hefur skorað 31 mark í fjórum leikjum með ÍBV í Olísdeildinni. Hann er vinstrihornamaður eins og Oddur.
Í gær voru Magnús Óli Magnússon og Kristján Örn Kristjánsson, Donni, valdir í landsliðshópinn í stað Ólafs Andrésar Guðmundsson og Arnórs Þórs Gunnarssonar.
Leikur Íslands og Litháen fer fram í Laugardalshöll á miðvikudagskvöld. Flautað verður til leiks klukkan 19.30. Engum áhorfendum verður hleypt inn í Höllina en leikurinn verður í beinni útsendingu RÚV.