- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Flest gekk vel upp hjá okkur í fyrri hálfleik

- Auglýsing -

„Fyrri hálfleikurinn var mjög góður. Flest gekk vel upp hjá okkur. Síðari hálfleikur var síðri og á tíðum féllum við full mikið niður og þá slaknaði talsvert á okkur. Ég ætla hins vegar ekki að hengja mig of mikið í þau atriði, að minnsta kosti ekki í bili,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla þegar handbolti.is heyrði í honum eftir sigurleikinn á Slóvenum, 32:26, í fyrri vináttuleik landsliðsins á móti í París í gærkvöld.

Síðari leikur íslenska landsliðsins á mótinu verður við Frakka á morgun og hefst kl. 16.


Sjá einnig: Íslenska landsliðið mætir Evrópumeisturunum á sunnudaginn

Eigum ekki að láta slá okkur út af laginu

„Kaflinn þar sem margt datt niður hjá okkur í síðari hálfleik var full langur. Markvarslan dofnaði og sóknarleikurinn var slakur. Vissulega komu Slóvenar inn með öðru hugarfari í síðari hálfleik og voru mjög fastir fyrir og rúmlega það. Hins vegar eigum við ekki að láta slá okkur svona út af laginu. Þegar á síðari hálfleik leið þá sóttum við í okkur veðrið á ný og unnum góðan sigur,“ sagði Snorri Steinn.

Nokkur glórulaus brot

Spurður um ákefð Slóvena við varnarleikinn í upphafi síðari hálfleiks sagði Snorri Steinn að nokkur brot Slóvena hafi verið „glórulaus“. „Spilamennskan hefði geta verið betri um tíma og eins var mögulegt að nýta færin sem við fengum betur og verið fastari fyrir,“ sagði Snorri Steinn en m.a. fóru þrjú hraðaupphlaup íslenska landsliðsins forgörðum á skömmum tíma.

„Við verðum að læra af öllu því sem tekst illa. En það var margt gott í fyrri hálfleik sem við tökum með okkur.“

Lagði áherslu að menn hlífðu sér ekki

Allir leikmenn íslenska landsliðsins komust heilir frá leiknum í gær þótt mikið gengi á, ekki síst í ákafa Slóvena við varnarleikinn framan af í síðari hálfleik en lið þeirra uppskar rautt spjald fyrir grófan leik.

„Ég lagði áherslu á það við leikmenn að þeir hlífðu sér í engu í leiknum. Mér fannst strákarnir svara því enda var fyrri hálfleikur mjög góður.“

Reynum kannski eitthvað annað

Snorri Steinn sagðist ekki vera búinn að leggja upp síðari leikinn á mótinu sem fram fer á morgun.

„Ég verð að halda áfram að dreifa álaginu, forðast að keyra hlutina í kaf en á sama tíma verðum við að æfa okkur og fara í gegnum áhersluatriði. Ekki er útilokað að við reynum aðrar uppstillingar. Ég vil aðeins sjá betur hvernig gekk í leiknum í kvöld áður en ég fer að skipuleggja síðari leikinn. Við verðum að nýta leikinn til þess að bæta okkur og leita svara, gera okkur tilbúna fyrir föstudaginn þegar EM hefst,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari þegar handbolti.is sló á þráðinn góða í gærkvöld.

Sjá einnig: Öruggur sigur á Slóvenum í kaflaskiptum leik í París

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -