Mannhaf tók á móti nýkrýndum bikarmeisturum ÍBV í handknattleik kvenna við komuna til Heimaeyjar í kvöld eftir siglingu frá Landeyjahöfn. Flugeldum var skotið á loft þegar Herjólfur sigldi inn í höfnina í Eyjum með bikarmeistarana og fjölda annarra farþega. Mátti ekki minna vera enda eru liðin 19 ár síðan ÍBV kom síðast heim með sigurlaunin í bikarkeppninni í kvennaflokki í farteskinu.
ÍBV vann Val í hörkuleik í Laugardalshöll í dag, 31:29, eftir að hafa verið marki undir í hálfleik. Vafalítið hafa verið um eitt þúsund Eyjamenn á leiknum og að vanda settu þeir kröftugan svip á leikinn.
Sæunn Magnúsdóttir formaður ÍBV var með í för og flutti stutt ávarp við komuna og eins má sjá á myndum að Sigurður Bragason þjálfari ÍBV tók til máls.
Í meðfylgjandi frétt fréttavefsins Tiguls í Vestmannaeyjum er fjöldi mynda frá komu ÍBV-liðsins heim í kvöld og ljóst að mikið var um dýrðir, glatt á hjalla og bros á hverju andliti. Til stóð að halda gleðinni áfram fram á rauða nótt á Háaloftinu eins og Eyjamönnum einum er lagið.
Frétt Tíguls: Vel tekið á móti bikarmeisturunum í kvöld – Myndir