Mosfellingurinnn Þorsteinn Leó Gunnarsson sló upp flugeldasýningu í síðari hálfleik í Laugardalshöll í kvöld sem varð til þess að fleyta íslenska landsliðinu áfram til sigurs á ólseigum leikmönnum Bosníu í upphafsleik beggja landsliða í 3. riðli undankeppni Evrópumótsins í handknattleik karla. Þorsteinn Leó skoraði átta mörk í níu skotum í síðari hálfleik og sýndi landsliðsþjálfaranum hvers hann væri megnugur í sex marka sigri íslenska landsliðsins, 32:26. Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 12:12.
Næsti leikur íslenska landsliðsins í undankeppninni verður gegn Georgíu í Tíblisi á sunnudaginn.
Íslenska landsliðið, með mosfellsku stórskyttuna í aðalhlutverki tókst að sprengja upp leikinn á síðasta stundarfjórðungnum og skoraði 12 mörk gegn sex frá Bosníumönnum sem höfðu fram til þessa verið að færa sig upp á skaftið og m.a. komist nokkrum sinnum marki yfir. Meiri kraftur og áræðni kom í sóknarleikinn.
Seinni bylgjan varð kraftmeiri og braut upp varnarleik. Vörninni var komið á hreyfingu og um leið losnaði um fleiri leikmenn íslenska landsliðsins eins og til dæmis Janus Daða Smárason og Ómar Inga Magnússon.
Varnarleikur íslenska landsliðsins var góður allan leikinn en markvarslan hefði mátt vera betri. Sóknarleikurinn var þungur í vöfum lengi vel en batnaði þegar á leið þegar hægt var að koma meiri hreyfingu á varnarmenn bosníska liðsins.
Mörk Íslands: Þorsteinn Leó Gunnarsson 8, Orri Freyr Þorkelsson 6, Óðinn Þór Ríkharðsson 5/1, Ómar Ingi Magnússon 5/1, Elvar Örn Jónsson 3, Janus Daði Smárason 3, Gísli Þorgeir Kristjánsson 1, Einar Þorsteinn Ólafsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 6, 25% – Björgvin Páll Gústavsson 2, 20%.
Mörk Bosníu: Luka Peric 7, Mislav Grgic 5, Marko Panic 4, Marko Majstorovic 3, Senjamin Buric 2, Nedim Hadzic 2, Milan Vuksic 1, Mirko Herceg 1, Adi Mehmedcehajic 1.
Varin skot: Benjamin Buci 9/1, 29% – Admir Ahmertasevic 0.
Handbolti.is var í Laugardalshöll og fylgist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.