- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fór meidd af velli eftir níu mínútur í stórsigri

Hildigunnur Einarsdóttir er leikmaður Leverkusen. Mynd/Bayer Leverkusen
- Auglýsing -

Hildigunnur Einarsdóttir fór meidd af leikvelli eftir níu mínútur í kvöld þegar lið hennar, Bayer Leverkusen, vann öruggan sigur á neðsta liði þýsku 1. deildarinnar, Mainz, 30:21, á útivelli. Með sigrinum færðist Leverkusen upp í fimmta sæti deildarinnar en þetta var fjórði sigur liðsins eftir EM-hléið. Enginn leikur hefur tapast. Um miðjan síðari hálfleik í kvöld var munurinn 13 mörk.


„Það er rifa í liðþófanum og ég á að fara í aðgerð á hnénu í febrúar. Það stendur til að pússa hann niður,“ sagði Hildigunnur við handbolta.is í kvöld. Hún skoraði tvö mörk á þeim stutta tíma sem hún var inni á leikvellinum.

„Ég er með slæma verki í hnénu og beiti mér rangt fyrir vikið og þá bara fjölgar vandamálunum,“ sagði Hildigunnur ennfremur en hún reynir að þrauka áfram að ósk forráðamanna liðsins.

Vilja að hún þrauki áfram

„Þeir vilja að ég haldi út til loka janúar en þá eigum við leik í átta liða úrslitum. Leik sem við eigum góða möguleika á að vinna og komast þar með í úrslitahelgina. Vegna þessa þá æfi ég eins lítið og hægt er,” sagði Hildigunnur ennfremur sem hefði kosið að sleppa alveg þessum leik þar sem nokkuð ljóst var að Leverkusen myndi vinna hvort sem hún væri með eða ekki. Mainz hefur ekki krækt í eitt stig til þessa á keppnistímabilinu.

„Á sunnudaginn eigum við leik á erfiðum útivelli gegn Oldenburg og frekar mikilvægt að ég verði með þá. Þess vegna hefði verið betra að sleppa leiknum í kvöld,“ sagði hörkutólið Hildigunnur Einarsdóttir við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -