- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fóru með bæði stigin austur

Gunnar Hrafn Pálsson, einn nýliða Stjörnunnar, og Patrekur Jóhannesson, þjálfari. Ljósmynd/Stjarnan
- Auglýsing -

Selfoss sótti tvö stig í TM-höllina í Garðabæ þegar þeir lögðu Stjörnuna, 27:26, í hörkuleik í fyrstu umferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld. Selfoss fékk tvö tækifæri á síðustu mínútunni til að jafna metin en tókst ekki auk þess sem Alexander Már Egan fékk opið tækifæri til þess að gulltryggja sigur Selfoss-liðsins. Það var svo sannarlega spenna og dramatík í TM-höllinni þótt talsvert hafi vantaði upp á gæði leiksins svo snemma tímabils.

Stjarnan var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15:13.

Stjarnan var sterkari í fyrri hálfleik en leikmenn Selfoss voru aldrei langt undan. Varnarleikur Stjörnunnar var góður og vóg upp að markvarslan var ekki viðundandi. Hraðaupphlaup auk góðrar varnar fleytti liðinu áfram þannig að það hafði tveggja marka forskot þegar fyrri hálfleikur var á enda, 15:13.

Selfyssingar jöfnuðu metin snemma í síðari hálfleik og eftir það var jafnt á öllum tölum að heita mátti. Dramatíkin var síðan næg í lokin. Stjarnan missti boltann í sókn 55 sekúndum fyrir leikslok í stöðunni, 27:26, fyrir Selfoss. Selfoss-liðið fór í sókn og tíu sekúndum fyrir leikslok varði Sigurður Dan Óskarsson, markvörður Stjörnunnar, skot frá Alexander Má Egan úr opnu færi í vinstra horni. Stjörnumenn fengu þar með tækifæri á einni lokasókn en hún rann út í sandinn þegar Hergeir Grímsson vann boltann af Pétri Árna Haukssyni. Selfyssingar fögnuðu en Stjörnumenn gengu sneyptir af leikvelli enda vonsviknir að fá ekkert út úr jöfnum leik.

Ólafur Bjarki Ragnarsson skoraði fimm mörk fyrir Stjörnuna og var markahæstur. Dagur Gautason og Hafþór Vignisson skoruðu fjögur mörk hvor.  Guðmundur Hólmar Helgason fór mikinn í liði Selfoss og skoraði 10 mörk, þar af þrjú úr vítaköstum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -