Díana Dögg Magnúsdóttir og samherjar í BSV Sachsen Zwickau máttu bíta í það súra epli að fara án stiga úr heimsókn sinni til Leverkusen í kvöld þegar liðin mættust í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Eftir góðan leik framan af töpuðu leikmenn BSV Sachsen Zwickau niður þræðinum. Leverkusen vann með fimm marka mun, 33:28, eftir að hafa verið marki yfir í hálfleik, 14:13.
Þegar sjö umferðir eru eftir af deildarkeppninni er BSV Sachsen Zwickau í 11. sæti af 14 liðum með 12 stig að loknum 19 leikjum. Halle Neustadt er þremur stigum á eftir en Bad Wildungen er stigi fyrir ofan.
„Svekkjandi tap í kvöld. Fyrstu 15 til 20 mínúturnar voru fínar hjá okkur en þá fór að ganga illa og markvarslan hvarf. Enn einu sinni fórum við illa með vítaköstin,“ sagði Díana Dögg í við handbolta.is í kvöld. „Allir vafadómar virtust falla Leverkusen í hag og því miður var ekki alveg sama lína í dómgæslunni. Engu að síður óþarflega stórt tap miðað við gang leiksins.“
Tvö mörk – fimm stoðsendingar
Díana Dögg skoraði tvö mörk, átti fimm stoðsendingar, skapaði einnig fimm marktækifæri, vann fjögur vítaköst, stal boltanum einu sinni, vann þrjá andstæðinga af leikvelli en mátti sjálf sætta sig við að vera vikið einu sinni af leikvelli.
Bikarúrslit um helgina
Framundan er rúmlega hálfsmánaðar hlé á keppni í þýsku 1. deildinni vegna landsleikja og úrslitahelgar bikarkeppninnar sem fram fer í Porsche-Arena í Stuttgart á laugardag og sunnudag. Sandra Erlingsdóttir verður í eldlínunni með samherjum sínum í TuS Metzingen sem mæta meisturum Bietigheim í undanúrslitum á laugardaginn. Í hinni viðureign undanúrslita eigast við HSG Bensheim/Auerbach og Oldenburg.